Ætlum að halda okkur í deildinni

Fjölnir bar sigur úr býtum í 1. deildinni í fyrra.
Fjölnir bar sigur úr býtum í 1. deildinni í fyrra. mbl.is/Stella Andrea

„Þessi fyrsti leikur var ákveðin prófraun á liðið og nú förum við bara inn í æfingasalinn og lögum þá hluti sem við viljum bæta,“ sagði Arnór Ásgeirsson, þjálfari Fjölnis, eftir að lið hans tapaði stórt fyrir ÍBV í fyrsta leik Olís-deildar kvenna í handknattleik í dag 28:17.

Fjölniskonur eru nýliðar í deildinni og miðað við leikinn í dag er lærdómsríkur vetur framundan.

„Já að sjálfsögðu. Við erum með mjög ungt lið og erum að reyna að vinna í þeim hlutum sem við viljum gera vel. Við vorum að mæta mjög góðu Eyjaliði sem er spáð toppbaráttu, en stelpurnar gáfu ekkert eftir og fá allt hrós fyrir að leggja sig fram. Það er munur á þessum liðum en við ætlum okkur að minnka hann,“ sagði Arnór, en eftirvæntingin var skiljanlega nokkur fyrir fyrsta leik.

„Ég held að við höfum stillt þessu í hóf. Við ætluðum að mæta afslöppuð inn í leikinn og með svona ungan hóp eru meiri líkur a´að spennustigið sé ekki rétt stillt og mistök koma í kjölfarið. Mér fannst við ná að höndla þetta ágætlega í dag,“ sagði Arnór.

Eftir að hafa tryggt sér sæti í efstu deild í vor missti Fjölnir sinn besta leikmann, Díönu Kristínu Sigmarsdóttur, einmitt til ÍBV. Hvernig líst Arnóri á það lið sem hann hefur í höndunum?

„Við höfum ekki fengið á styrkingu sem við ætluðum okkur, það er alveg augljóst. En við verðum að halda áfram og erum að reyna að búa til meiri breidd í liðið. Það liggur ljóst fyrir að við ætlum að halda okkur í deildinni og við munum ekkert gefa þar eftir. Þetta er langt mót og við eigum nóg inni,“ sagði Arnór og vonar að stuðningsfólk Fjölnis styðji vel við bakið á liðinu.

„Við viljum koma sterkt inn í mótið, erum með bæði karla- og kvennalið í Olís-deildinni og viljum auðvitað að Grafarvogurinn komi með okkur í þetta enda er þetta stórt hverfi. Það á að vera fullt hús í hverjum leik enda mikilvægt að fá góðan stuðning,“ sagði Arnór Ásgeirsson, þjálfari Fjölnis, við mbl.is.

Arnór Ásgeirsson.
Arnór Ásgeirsson. Ljósmynd/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert