Stórsigur ÍBV í fyrsta leik tímabilsins

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og lið ÍBV byrja tímabilið vel.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og lið ÍBV byrja tímabilið vel. mbl.is/Árni Sæberg

ÍBV vann gríðarlega öruggan sigur á nýliðum Fjölnis þegar liðin áttust við í Dalhúsum í fyrsta leik Olís-deildar kvenna þetta tímabilið. Eftir að hafa haft sjö marka forskot í hálfleik landaði ÍBV 11 marka sigri, 28:17.

Nokkuð jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar eða svo á meðan liðin voru að leita að taktinum. Eftir því sem á leið náði ÍBV undirtökunum á meðan Fjölnir skoraði aðeins eitt mark síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks og að honum loknum var staðan 13:6 fyrir ÍBV.

Fjölniskonur komu aldrei til baka eftir þetta heldur hélt ÍBV áfram að hamra járnið meðan heitt var. Sóknarmistök Fjölnis reyndust dýr og ÍBV refsaði fljótt og munurinn var kominn upp í 11 mörk þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir, 21:10.

Fjölnir gaf baráttuna hins vegar aldrei upp á bátinn. ÍBV dreifði álaginu á milli leikmanna á lokasprettinum og sigldu Eyjakonur að lokum öruggum sigri í hús, 28:17.

Ester Óskarsdóttir og Karólína Bæhrenz skoruðu báðar sjö mörk fyrir ÍBV en hjá Fjölni skoruðu Andrea Jacobsen og Sara Margrét Brynjarsdóttir fjögur mörk.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Fjölnir 17:28 ÍBV opna loka
60. mín. Þórhildur Vala Kjartansdóttir (Fjölnir) fiskar víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert