Aron stefndi ferlinum í hættu fyrir Barcelona

Aron Pálmarsson getur brátt farið að leika handbolta á nýjan …
Aron Pálmarsson getur brátt farið að leika handbolta á nýjan leik. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Félagaskipti Arons Pálmarssonar, landsliðsmanns í handknattleik, til spænska stórliðsins Barcelona hafa loks gengið í gegn eftir að hafa verið í pípunum síðustu vikur. Aron hefur skrifað undir fjögurra ára samning við Barcelona og yfirgefur þar með ungverska meistaraliðið Veszprém eftir rúm tvö ár hjá félaginu.

Aron er strax orðinn löglegur með Barcelona og spilar væntanlega sinn fyrsta leik með liðinu 4. nóvember þegar Barcelona mætir Zagreb í Meistaradeildinni. Hann verður enn ein stjarnan í stjörnum prýddu liði Barcelona, sem hefur hampað spænska meistaratitlinum síðastliðin sjö ár og spilað 128 leiki í deildinni heima fyrir án ósigurs.

Aron hefur ekki spilað leik það sem af er tímabili eftir að hafa óskað eftir að yfirgefa Veszprém í sumar og samkvæmt fregnum lent upp á kant við forráðamenn félagsins. Þegar Barcelona tilkynnti komu Arons í gær birtist áhugaverð tilkynning á heimasíðu Veszprém um málið, þar sem Ungverjarnir halda því fram að Aron hafi verið hársbreidd frá löngu keppnisbanni.

Hársbreidd frá keppnisbanni

Deilur Arons við Veszprém hófust í sumar þegar hann tilkynnti nýjum þjálfara liðsins, Ljubomir Vranjes, að hann myndi ekki mæta á æfingu og vildi fara frá félaginu. Aron átti eitt ár eftir af samningi sínum og hótaði félagið meðal annars að fara í mál við hann. Samkvæmt tilkynningu Ungverjanna í gær rifti félagið samningi sínum við Aron og krafðist þess að ungverska handknattleikssambandið færi í málið, sem hefði getað leitt til þess að Aron yrði dæmdur í tveggja ára keppnisbann fyrir samningsbrot.

Veszprém greinir frá því að Aron hafi að lokum viðurkennt mistök sín í málinu og í kjölfarið hafi Veszprém samþykkt að fara í samningaviðræður við Barcelona um félagaskiptin en hefði annars látið Aron sitja af sér samninginn. Þá hafi Veszprém ítrekað beðið ungverska handknattleikssambandið að fresta fyrirtöku á máli Arons sem hefði getað leitt til keppnisbannsins; einungis svo glæsilegur ferill Hafnfirðingsins myndi ekki hljóta varanlegan skaða.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert