Teitur var heitur í dag

Teitur Örn Einarsson.
Teitur Örn Einarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Teitur Örn Einarsson fór á kostum þegar Selfoss vann Fjölni, 32:30, í Olís-deild karla í handknattleik í dag. Teitur skoraði 14 mörk, en Selfoss komst fyrst yfir þegar fjórðungur var eftir af leiknum.

„Þetta var sennilega meiri hörkuslagur en við bjuggumst við. Þeir mættu svakalega kröftugir til leiks og við ekki nógu tilbúnir, lentum 6:2 undir og vorum í tómu tjóni. Vörnin var ekki að virka og markvarslan ekki að detta, en sóknin kom okkur aftur inn í leikinn. Við náðum svo að taka þetta á seiglunni í lokin,“ sagði Teitur, sem fór á kostum sem fyrr segir.

„Ég hitti rosalega vel og fékk góð færi. Atli [Ævar Ingólfsson] vann vel fyrir mig á línunni og ég var bara heitur,“ sagði Teitur eftir 14 mörk sín.

Mikill hiti var í leiknum þar sem einn leikmaður úr hvoru liði fékk að líta rautt spjald og blátt í kjöl­farið sem þýðir að brot þeirra verða tek­in sér­stak­lega fyr­ir hjá aga­nefnd. Dómararnir voru mikið í sviðsljósinu en Teitur gerði lítið úr því.

Ég nenni ekki að vera neikvæður og fannst þetta bara allt í lagi. Þetta er bara búið og það er bara þannig,“ sagði Teitur.

Eftir sigurinn er Selfoss með 18 stig eins og ÍBV í 2.-3. sætinu og skipti hann því sköpum í toppbaráttunni.

„Já, heldur betur, þetta var gríðarlega mikilvægur sigur og við þurfum á öllum stigum að halda ef við ætlum að vera í toppbaráttunni í deildinni,“ sagði Teitur.

Teitur skoraði 14 og leikbönn í vændum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert