Kári tjáir sig um veikindin

Kári Kristján Kristjánsson í leik með ÍBV gegn Haukum í …
Kári Kristján Kristjánsson í leik með ÍBV gegn Haukum í undanúrslitum bikarkeppninnar í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Handknattleiksmaðurinn Kári Kristján Kristjánsson, línumaður ÍBV, hefur verið með æxli í bakinu í rúman áratug.

Í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum Mottumars viðurkennir Kári Kristján að vilja ekki alltaf tjá sig opinskátt um veikindi sín.

„Þetta gengur í stigum. Þú verður hræddur, heldur að þú sért að fara að deyja og veist ekki neitt. Í þessu ferli ertu kannski ekkert alltaf til í að vera að segja frá og alltaf vera að tala um þetta.

Hreyfing, eða íþróttin mín handbolti í þessu tilviki, ég myndi segja að hún hafi bjargað mjög stórum hluta af því að halda geðheilsunni.

Að geta einfaldlega fengið sér frí frá áhyggjum. Ég þurfti að átta mig á að ég þurfti að taka ábyrgð á minni eigin heilsu,“ sagði hann og bætti við:

Sit ekki á varamannabekknum í eigin lífi

„Ég þarf að ganga í gegnum þetta, ég þarf að vita hvað er að fara að gerast og vil vita hver næstu skref eru.

Ég ætla ekki bara að sitja á varamannabekknum í eigin lífi á meðan einhver annar reddar þessu. Nei, ég er inni á og vil fá að vita nákvæmlega hvað er að gerast.“

Hræddur í fjögur til fimm ár

„Þegar verst lét var maður hugsandi um þetta 24/7. Ætli það hafi ekki verið svona fjögur, fimm ár sem maður var rosalega hræddur.

Ég varð fyrst var við þetta 2011 eða 2012. Ég er bara ennþá með þetta æxli í bakinu og er undir eftirliti, fer í mínar myndatökur og skoðanir,“ sagði Kári Kristján einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert