Þá held ég að við vinnum þá

Benedikt Gunnar Óskarsson er lykilmaður í liði Vals.
Benedikt Gunnar Óskarsson er lykilmaður í liði Vals. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Við þurfum að huga að vörninni,“ sagði Valsarinn Benedikt Gunnar Óskarsson í samtali við mbl.is fyrir komandi leik liðsins gegn rúmenska liðinu Steaua Búkarest í Evrópubikarnum í handbolta. 

Mbl.is hitti á Benedikt á Hlíðarenda í gær en Valsmenn, sem unnu fyrri leikinn í Rúmeníu 36:35, fara með eins marks forystu inn í leikinn á Hlíðarenda næstkomandi laugardag. 

„Það var mjög fínt. Við vorum ekki alveg nógu góðir síðustu tuttugu mínútur leiksins. Annars spiluðum við mjög vel og gott að ná í sigurinn í Rúmeníu. 

Við þurfum aðeins að huga að vörninni. Við vorum hægir til baka og spiluðum ekki góða vörn. 

Þá missum við líka sóknina og allt í raun og veru. Ég held við verðum að leggja mestu áhersluna á það,“ sagði Benedikt um leikinn á sunnudaginn var.

Frábær lið sem við erum að mæta

Valsliðið fór mikinn í Evrópudeildinni í fyrra sem er sterkari deild en Evrópubikarinn. Þar mætti liðið sumum af sterkari liðum Evrópu og datt út gegn þýska liðinu Göppingen í 16-liða úrslitum.

„Við erum ekki að mæta jafn stórum liðum. Maður var spenntari fyrir öllu í fyrra en þetta er samt Evrópukeppni og frábær lið sem við erum að mæta. Mesti munurinn er bara á stærð liðanna. 

Við verðum að ná upp okkar hraða og spila betri vörn, þá held ég að við vinnum þá.“

Og fá stuðningsmennina með ykkur í lið?

„Það væri líka geggjað,“ bætti Benedikt við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert