Wilbek: Góður varnarleikur hjá Íslendingum á HM

Ulrik Wilbek fagnar sigrinum gegn Rússum á HM í Sevilla.
Ulrik Wilbek fagnar sigrinum gegn Rússum á HM í Sevilla. AFP

Ulrik Wilbek þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik segir að Íslendingar hafa spilað góðan varnarleik á heimsmeistaramótinu og hann þurfi að finna svör við honum en í kvöld mæta lærisveinar Wilbeks liði Íslendinga í 4. umferð í riðlakeppninni á HM í Sevilla.

„Mér hefur fundist íslenska liðið spila mjög góðan varnarleik og það að halda Kiril Lazarov frá því að skora eitt einasta mark utan af velli segir meira en mörg orð og eins að Ísland tókst að halda Makedóníu undir 20 mörkum. Við þurfum að ná upp hröðum sóknarleik á móti íslensku vörninni og reyna með því að finna glufur á henni,“ sagði Wilbek í samtali við mbl.is eftir sigur sinna manna á Sílemönnum í gærkvöld.

„Ég er auðvitað meðvitaður um að Ísland saknar nokkurra sterkra leikmanna og það hefur komið niður á sóknarleiknum sem hefur ekki verið eins góður nú og áður. Samt sem áður er íslenska liðið mjög vel mannað og ef því tekst að halda sama leik í vörninni þá verða þeir mjög erfiðir viðfangs,“ sagði Wilbek.

Wilbek segir að lið sitt sé skemmtilegra nú heldur en í fyrra en Danir hömpuðu Evrópumeistaratitlinum undir hans stjórn í Serbíu fyrir ári síðan.

„Það er meiri hraði í liðinu. Hraðaupphlaupin eru góð hjá okkur og sóknarleikurinn fjölbreyttur og beittur. Það eru kannski veikleikar í vörninni hjá okkur en við skulum sjá hvað verður,“ sagði Wilbek.

Wilbek hefur náð frábærum árangri á þjálfaratíð sinni. Hann gerði frábæra hluti með danska kvennalandsliðið en það var heims- Evrópu og ólympíumeistari undir hans stjórn. Í fyrra urðu Danir Evrópumeistarar undir hans stjórn á EM karla í Serbíu og fyrir tveimur árum hrepptu Danir silfrið á HM með Wilbek við stjórnvölinn. Hann hyggst hætta með liðið eftir úrslitakeppni EM á næsta ári en hún verður haldin í Danmörku.

„Auðvitað stefnir maður alltaf af því að vinna mót en fyrsta markmið okkar nú er að komast í undanúrslitin,“ sagði Wilbek, sem er algjör ljúflingur utan vallar en á það til að skipta um ham þegar út í leikina er komið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert