Þetta var flottur leikur

„Þetta var alls ekkert auðvelt," sagði Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis, við mbl.is í kvöld glaður í bragði eftir að lið hans hafði unnið Bosníu, 23:21, á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Doha í Katar í kvöld.

Þetta var fyrsti sigur austurríska landsliðsins á mótinu en í gær tapaði það fyrir Króatíu með þriggja marka mun. Sigurinn í kvöld getur verið dýrmætur fyrir lærisveina Patreks haldi þeir rétt á spilunum í næstu tveimur viðureignum, gegn Túnis og Íran.

Viðureignin í Al-Sadd í kvöld einkenndist á baráttu og mörgum mistökum á báða bóga. Bosnía, sem sló Ísland út í undankeppninni í vor sem leið, var marki yfir í hálfleik, 12:11. Austurríska liðið lék sterka vörn í síðari hálfleik auk þess með Nikola Marinovic varði afar vel. Þegar sjö mínútur voru til leiksloka var munurinn orðinn sex mörk, 22:16. Bosníumenn bitu frá sér í lokin en tókst ekki að jafna metin.

„Varnar- og sóknarleikurinn var góður í síðari hálfleik, svo ég er sáttur þegar upp er staðið auk þess sem það var gott hvað tókst vel að dreifa álaginu niður á leikmennina," sagði Patrekur.

„Ég er einnig ánægður með hvernig liðið vinnur saman hjá mér, hvort sem hlutverk manna eru lítil eða stór. Þetta var flottur leikur," sagði Patrekur sem fær frí frá keppni á morgun til þess að búa sig undir viðureign við Túnis á mánudaginn en Túnisbúar hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum. Ef það tekur við leikur gegn Íran.

„Við verðum að halda áfram okkar vinnu og halda einbeitingu," sagði Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríks, en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert