„Það er enginn eilífur í þessu“

Guðjón Valur fagnar marki gegn Slóvenum í dag.
Guðjón Valur fagnar marki gegn Slóvenum í dag. AFP

„Ég var mjög stressaður,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, við mbl.is eftir ósigur Íslendinga gegn Slóvenum á HM í handknattleik í Metz í dag.

Guðjón Valur var óvænt í varamannshlutverki í leiknum í dag en hann kom fjórum sinnum inn á til að taka vítaköst og skoraði úr þremur þeirra.

„Ég er alveg heill heilsu og ég var ótrúlega ánægður með Bjarka Má. Hann stóð sig frábærlega. Hann lenti í veseni með nárann á sér og var tæpur fyrir mótið. Ég er ótrúlega glaður fyrir hans hönd. Þetta er það sem þetta snýst um. Menn fá tækifæri og nýta þau og enginn er eilífur í þessu,“ sagði Guðjón Valur.

Ótrúlega ánægður með þennan leik

„Ef ég segi eins og er þá er ég alveg ótrúlega ánægður með þennan leik hjá okkur. Björgvin var stórkostlegur í markinu til að byrja með og hann gaf vörninni þetta sjálfstraust sem þarf. Vorum svolítið stirðir í sókninni í fyrri hálfleik og lengi í gang. Við þurftum að hafa fyrir mörkunum en það var mikill stígandi í leik liðsins og sóknarleikurinn gekk miklu betur í seinni hálfleiknum. Við vorum hreyfanlegri og það kom sjálfstraust í menn.

Við vissum að þessi staða gæti komið upp að vera stigalausir eftir tvo fyrstu leikina á móti sterkustu liðunum en nú ríður á að við gerum okkur grein fyrir því að í dag er næsti dagur og næsti leikur sem skiptir öllu máli. Ég er sannfærður um það að ef okkur tekst að halda þessari spilamennsku sem er í gangi núna þá vinnum við næstu þrjá leiki.

Við erum nokkrir eldri sem erum að hjálpa ungu strákunum sem eru að stíga sín fyrstu skref með liðinu á stórmóti og toga eitthvað með þeim. Það er ekki hægt að fara fram á meira af strákunum en að þeir leggi sig alla fram og menn voru svo sannarlega að gefa allt í leikinn sem þeir áttu, bæði líkamlega og andlega. Vonbrigðin með þessi úrslit eru gríðarleg,“ sagði Guðjón Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert