Fæ andlegan stuðning frá Aroni Einari

Arnór Þór Gunnarsson fagnar einu af sjö mörkum sínum gegn …
Arnór Þór Gunnarsson fagnar einu af sjö mörkum sínum gegn Angóla í gærkvöld. AFP

„Nei, nei skrokkurinn er ekkert að gefa sig eftir þessa fjóra leiki á sex dögum. Raggi Óskars er búinn að sjá um okkur eftir leikina og fyrir æfingar. Hann heldur okkur gangandi ásamt Ella sjúkraþjálfara og hans teymi,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, hornamaðurinn knái í íslenska landsliðinu í handknattleik í Metz í samtali við mbl.is í dag.

Íslensku landsliðsmennirnir eru byrjaðir að undirbúa sig fyrir leikinn gegn Makedóníu annað kvöld en eftir þann leik ráðast örlög íslenska liðsins. Ísland er öruggt áfram í 16-liða úrslitin með sigri en tap mun líklega þýða að Ísland kemst ekki áfram og fer í keppnina um Forsetabikarinn.

„Eins og staðan er núna þá viljum við ná þriðja sætinu og sá möguleiki er til staðar ef Makedónía vinnur ekki Spán í kvöld. Það sem mestu máli skiptir er að við höfum þetta í okkar höndum að komast áfram. Við fórum yfir lið Makedóníumanna á liðsfundi áðan og við verðum tilbúnir þegar út í leikinn er komið,“ sagði Arnór Þór, sem átti fínan leik í gær og skoraði 7 mörk í 14 marka sigrinum gegn Angóla.

„Makedóníumennirnir hafa spilað mikið með aukamann í sókninni og Kiril Lazarov er þeirra helsti maður. Hann er að velja sendingar út í horn eða línu eða skjóta sjálfur. Hann er frábær leikmaður sem við verðum að taka fast á. Ef okkur tekst að halda honum í skefjum þá er talsvert unnið. Lazarov er heilinn í þessu liði þeirra. Þeir eru með fleiri góða leikmenn eins og hornamanninn sem er samherji Guðjóns Vals hjá Löwen,“ sagði.

Þú fórst í sumar á EM og hvattir bróður þinn, Aron Einar, til dáða. Hann hefur ekki ætlað að endurgjalda það með því að mæta á HM?

„Ég hef ekki séð hann ennþá,“ sagði Arnór Þór og brosti í kampinn. „Ég veit að það er þétt dagskrá hjá honum á Englandi en hann er í miklu og góðu sambandi við mig. Hann veitir mér andlegan stuðning endalaust enda flottur og góður bróðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert