Ísland með gott tak á Makedóníu

Björgvin Páll Gústavsson og Túnisinn Oussama Boughanmi í léttri rimmu.
Björgvin Páll Gústavsson og Túnisinn Oussama Boughanmi í léttri rimmu. AFP

Íslendingar hafa haft gott tak á Makedóníumönnum á handboltavellinum en liðin eigast við í mikilvægum leik á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Metz í dag.

Ísland og Makedónía hafa mæst 12 sinnum, alltaf á stórmótum eða í undankeppni þeirra. Ísland hefur unnið í tíu af þessum leikjum en Makedónía í tveimur. Ísland hefur unnið fimm síðustu viðureignir þjóðanna en tapaði síðast í Skopje 2008, í umspili fyrir HM.

Ísland og Makedónía áttust við á HM á Spáni 2013 þar sem Ísland hafði betur, 23:19, og Ísland fagnaði einnig sigri, 29:27, þegar liðin áttust við á EM í Danmörku 2014.

Liðið sem hefur betur í dag tryggir sér þriðja sætið í riðlinum og mætir Norðmönnum í 16-liða úrslitunum en tapi Íslendingar leiknum bíður liðsins að öllum líkindum að fara í keppnina um Forsetabikarinn en tvö neðstu liðin í hverjum riðli fara í þá keppni.

Leikurinn í dag hefst klukkan 16.45 að íslenskum tíma og er fylgst með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert