„Ég var orðinn svo stressaður“

Snorri Sigurbjörnsson, lengst til hægri, fagnar ásamt liðsfélögum sínum þeim …
Snorri Sigurbjörnsson, lengst til hægri, fagnar ásamt liðsfélögum sínum þeim Agli Þormóðssyni og Birni Róbert Sigurðarsyni. mbl.is/Golli

„Þetta er sko ekki leiðinlegt,“ sagði Snorri Sigurbjörnsson, leikmaður nýkrýndra Íslandsmeistara Esju í íshokkí, þegar mbl.is tók hann tali í Laugardalnum í kvöld. Hann var þá nýbúinn að láta mynda sig í bak og fyrir með stóra bikarinn og var í hinu besta skapi.

Esja vann SA Víkinga 3:0 í einvíginu, en leikurinn í kvöld var heldur betur æsilegur. Það þurfti vítabráðabana til þess að fá fram sigurvegara í kvöld og fögnuður Esjumanna var ósvikinn.

„Þetta er mjög sætt. Mig langaði að vinna þetta fyrir framlenginguna, það hefði verið betra. Ég var orðinn svo stressaður og var alveg að pissa í mig. Ég þurfti bara að halda í mér,“ sagði Snorri og skellihló.

„Þetta var ótrúlega spennandi allan tímann og allir leikirnir mjög jafnir. Það er ótrúlega gaman að fagna þessum Íslandsmeistaratitli,“ sagði Snorri, en tímabilið hjá Esju hefur verið magnað þar sem liðið fagnaði sínum fyrstu titlum með því að vinna einnig öruggan sigur í deildinni.

„Við erum búnir að vinna fyrir þessu allt tímabilið. Þetta hefur verið fullkominn vetur, við töpuðum tveimur leikjum á öllu tímabilinu og þetta getur ekki verið betra. Nú er sannarlega innistæða fyrir því að fagna,“ sagði Snorri Sigurbjörnsson kampakátur við mbl.is.

Sjá:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert