KR vann Njarðvík á þriggja stiga flautukörfu

Joshua Helm skoraði 31 stig fyrir KR í kvöld.
Joshua Helm skoraði 31 stig fyrir KR í kvöld. Golli

KR sigraði Njarðvík, 82:81, í ótrúlegum spennuleik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í DHL-höll KR-inga í kvöld. Helgi Magnússon skoraði sigurkörfu KR með 3ja stiga skoti um leið og leiktíminn rann út. Fimm leikir fóru fram í deildinni. Keflavík sigraði ÍR, 110:79, og er áfram á toppnum með fullt hús stiga. Grindavík vann Tindastól, 90:78 og Skallagrímur vann Fjölni, 88:65. Stjarnan vann Þór frá Akureyri, 85:78.

Keflavík er með 10 stig eftir 5 umferðir, KR og Grindavík 8, Njarðvík og Tindastóll 6, ÍR, Skallagrímur og Stjarnan 4, Snæfell, Hamar, Fjölnir og Þór A. 2 stig hvert. Hamar og Snæfell mætast annað kvöld.

KR var yfir eftir fyrsta leikhluta, 20:19, og liðin voru yfir til skiptis þar til KR náðu fjögurra stiga forystu, 32:28, og bilið breikkaði eftir það, mest í níu stig, 43:34. Staðan var 43:37 í hálfleik.

Joshua Helm skoraði 18 stig fyrir KR í fyrri hálfleik og Darri Hilmarsson 9. Hjá Njarðvík var Jóhann Ólafsson með 9 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson og Charleston Long með 7 stig.

Í þriðja leikhluta söxuðu Njarðvíkingar á forskotið og komust síðan yfir. Þeir komust í 62:58 undir lok leikhlutans og síðan 67:63 en Helgi Magnússon skoraði úr tveimur vítaskotum fyrir KR í lokin, 67:65.

KR byrjaði fjórða leikhluta með látum, gerði fyrstu níu stigin og komst í 74:67. Staðan var síðan 76:70 en Njarðvíkingar gáfust ekki upp og jöfnuðu, 77:77, þegar rúm mínúta var eftir. Brenton Birmingham kom þeim í 78:77, Helm svaraði, 79:78 og Egill Jónasson fyrir Njarðvík um hæl, 80:79. Njarðvíkingar náðu svo boltanum 8 sekúndum fyrir leikslok eftir misheppnað skot frá Avi Vogel.

Jóhann Ólafsson tók tvö vítaskot fyrir Njarðvík og hitti úr því síðara, 81:79. KR tók leikhlé þegar 7 sekúndur voru eftir. Helgi Magnússon skaut úr erfiðu færi niðri í horni um leið og leiktíminn var að renna út og skoraði, 82:81.

Joshua Helm skoraði 31 stig fyrir KR og Darri Hilmarsson 11. Hjá Njarðvík var Charleston Long með 18 stig og Brenton Birmingham 16.

Skallagrímur - Fjölnir, 88:65, leik lokið
Skallagrímur var yfir í hálfleik, 40:38 en stakk af í þriðja leikhluta. Darrell Flake gerði 23 stig fyrir Borgnesinga og Pétur M. Sigurðsson 22 en Drago Pavlovic skoraði 24 stig fyrir Fjölni og Karlton Mims 15.

Tindastóll - Grindavík, 78:90, leik lokið
Grindavík var yfir í hálfleik á Sauðárkróki, 32:27. Adam Darboe skoraði 22 stig fyrir Grindvíkinga og Jonathan Griffin 18 en Marcin Konarzewski skoraði 25 stig fyrir Tindastól og Donald Brown 21.

Stjarnan - Þór A., 85:78, leik lokið

Keflavík - ÍR, 110:79, leik lokið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert