Keflavík í úrslit eftir stórsigur gegn ÍR

Úr fjórða leik ÍR og Keflavíkur.
Úr fjórða leik ÍR og Keflavíkur. mbl.is/Einar Falur

Keflavík og Snæfell eigast við í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Keflavík átti ekki í vandræðum með ÍR í oddaleik liðanna í kvöld, 93:73, og var þetta þriðji sigur Keflavíkur í röð í rimmunni eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum. Fyrsti leikurinn í úrslitum Íslandsmótsin er á laugardag kl. á heimavelli Keflavíkur. Fylgst var með gangi mála á mbl.is.

Það hefur aldrei áður gerst að lið sem tapar fyrstu tveimur leikjunum í undanúrslitum nái að snúa hlutunum sér í hag líkt og Keflavík gerði gegn ÍR.

Keflavík er með átta titla frá því að úrslitakeppnin fór fyrst fram árið 1984; 1989, 1992, 1993, 1997, 1999, 2003, 2004 og 2005. Keflavík hefur ekki leikið til úrslita um titilinn frá því að liðið varð síðast meistari en alls hefur liðið leikið 10 sinnum til úrslita frá árinu 1984. Viðureignin gegn Snæfell er því 11 úrslitarimman sem Keflavík fer. Snæfell hefur tvívegis áður leikið til úrslita. Í bæði skiptin gegn Keflavík, 2004 og 2005, og hafði Keflavík hafði betur 3:1 í bæði skiptin. 

Tölfræði leiksins á KKÍ. 

Frá því að úrslitakeppnin var sett á laggirnar í efstu deild karla í körfuknattleik árið 1984 hafa lið af Suðurnesjum ávallt leikið til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.

Keflavík - ÍR 93:73 (4. leikhluta er lokið). 

20:42 Keflavík er smátt og smátt að auka forskotið. Gunnar Einarsson skorað þriggja stiga körfu og er þetta fjórða skotið hjá honum sem fer rétta leið utan við þriggja stiga línuna úr aðeins fimm tilraunum. Staðan er 84:62 fyrir Keflavík.  ÍR hefur aðeins skorað 1 stig í fjórða leikhluta og það eru 3 mínútur eftir. Keflavík hefur skorað 19 stig gegn engu á undanförnum 5 mínútum.

20:36 Það er allt útlit fyrir að Keflavík og Snæfell mætist í úrslitum í þriðja sinn í sögunni. Gunnar Einarsson var að skora þriggja stiga körfu og staðan er 78:62 fyrir Keflavík og það eru 6 mínútur eftir af leiknum.  Keflavík og Snæfell mættust í úrslitum 2004 og 2005 og þar hafði Keflavík betur, 3:1, í bæði skiptin.

20:32 Keflavík er enn yfir, 70:62, og það eru 7 mínútur eftir af leiknum. Ef Keflavík sigrar verða þeir fyrsta liðið sem snýr hlutunum sér í hag eftir að hafa lent 2:0 undir í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Keflavík - ÍR 69:61 (3. leikhluta er lokið) 

Nate Brown er stigahæstur í liði ÍR með 17 stig og Eiríkur Önundarson hefur skorað 14 stig. Gunnar Einarsson er stigahæstur í liði Keflavíkur með 13 stig. Sveinbjörn Claessen skoraði síðustu stig þriðja leikhluta og er hann með 11 stig í liði ÍR. Það er eitthvað að gerast hjá ÍR.

20:19 ÍR hefur átt fína rispu á undanförnum mínútum. Staðan er 62:54, þegar 4 mínútur eru eftir af þriðja leikhluta. Eiríkur Önundarson er með þrjár villur í liði ÍR líkt og Hreggviður Magnússon sem hefur ekki fengið tækifæri í þriðja leikhluta.  

20:17 Það munar 11 stigum á liðunum. Staðan er 62:51 fyrir Keflavík þegar 6 mínútur eru eftir af þriðja leikhluta. 

20:11 Síðari hálfleikur er byrjaður. 

Keflavík - ÍR 52:38 (2. leikhluta er lokið).

ÍR hefur gefið eftir á síðustu mínútum fyrri hálfleiks. Þeim hefur ekki gengið vel að stjórna leiknum nógu vel og tveir af lykilmönnum liðsins, Hreggviður Magnússon og Sveinbjörn Claessen hafa ekki náð sér á strik. Nate Brown er stigahæstur í liði ÍR með 15 stig. Gunnar Einarsson er með 11 stig í liði Keflavíkur og Jón Nordal Hafsteinsson hefur skorað 10 stig fyrir deidarmeistarana.

19:48 Keflavík er að herða tökin á ÍR-ingum. Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR tekur leikhlé og það eru 1:30 mínútur eftir af fyrri hálfleik.  Staðan er 48:34 fyrir Keflavík.

19:46 ÍR hefur ekki náð að hitta úr opnum skotum í undanförnum sóknum. Staðan er 43:34 fyrir Keflavík. Hreggviður Magnússon hefur ekki náð sér á strik með ÍR og er hann aðeins með 3 stig. 

19:41 ÍR er núna í svæðisvörn.  Keflavík svarar því með þriggja stiga körfu og staðan er 38:33 fyrir Keflavík. Gunnar Einarsson hefur skorað 11 stig fyrir Keflavík og þar af þrjár þriggja körfur.

19:38 Nate Brown var að skora þriggja stiga körfu fyrir ÍR. Hann hefur skorað þrjár slíkar í leiknum og er hann með 11 stig. Staðan er 33:31 fyrir Keflavík.

19:35 Jón Nordal Hafsteinsson leikmaður Keflavíkur fékk högg á ennið og þarf að fara útaf. Það blæðir töluvert úr sárinu á enninu og sjúkrateymi Keflavíkur er að huga að Jóni. Staðan er 33:26 fyrir Keflavík. 

Keflavík - ÍR 29:25 (1. leikhluta er lokið) 

Leikurinn hefur byrjað vel. Keflavík komst í 14:6 en eftir það hafa ÍR-ingar náð betri tökum á sóknarleiknum. Sigurður Ingimundarson sagði við sína menn rétt í þessu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport að markmiðið væri að halda hraðanum uppi. 

19:24 Gunnar Einarsson er stigahæstur í liði Keflavíkur með 8 stig. Staðan er 19:14

19:20 Bæði lið leika maður á mann vörn. Það er ekkert gefið eftir í varnarleiknum. Keflavík hefur skorað 7 stig í röð án þess að ÍR hafi svarað fyrir sig, staðan er 14:6

19:17 Það eru 3 mínútur liðnar af leiknum og Keflavík er yfir, 7:6

19:15 Leikurinn er byrjaður. 

Keflavík hefur unnið tvo síðustu leikina í viðureign liðanna. Þetta er í fyrsta sinn í sögu úrslitakeppninnar þar sem að lið sem er 2:0 undir nær að jafna metin. 

Það verður án efa hart barist í leik Keflavíkur og …
Það verður án efa hart barist í leik Keflavíkur og ÍR. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert