Lakers stöðvaði sigurgöngu Utah

Darren Collison, bakvörður New Orleans Hornets, smýgur framhjá Rajon Rondo, …
Darren Collison, bakvörður New Orleans Hornets, smýgur framhjá Rajon Rondo, bakverði Boston, í leik liðanna í nótt. Reuters

Bryantslaust lið Los Angeles Lakers stöðvaði í nótt níu leikja sigurgöngu Utah Jazz í NBA-deildinni í körfuknattleik og vann öruggan útisigur, 96:81. Boston Celtics er áfram í basli og tapaði nú fyrir New Orleans Hornets.

Lamar Odom var í ham hjá Lakers og skoraði 25 stig, hans hæsta skor í vetur, og Pau Gasol átti líka stórleik og tók 19 fráköst. Andrew Bynum er líka frá vegna meiðsla hjá Lakers en liðið hefur samt náð að vinna síðustu þrjá leiki sína.

Boston sótti New Orleans heim og heimaliðið sigraði 93:85 þar sem nýliðinn Darren Collison skoraði 25 stig, þar af 13 í síðasta leikhluta. Hann átti ennfremur 9 stoðsendingar. Paul Pierce skoraði 17 stig fyrir Boston.

Stephen Jackson skoraði 33 stig fyrir Charlotte Bobcats í naumum útisigri á Minnesota Timberwolves, 93:92. Félagi hans Nazr Mohammed tók 20 fráköst.

Stephen Curry skorðai 36 stig fyrir Golden State Warriors sem vann stórsigur á LA Clippers, 132:102, eftir að hafa tapað níu leikjum í röð.

Úrslitin í nótt:

Atlanta - Miami 76:94
Toronto - Philadelphia 104:93
Detroit - Sacramento 97:103
New Jersey - Milwaukee 77:97
Chicago - Orlando 87:107
Minnesota - Charlotte 92:93
New Orleans - Boston 93:85
Phoenix - Portland 101:108
Utah - LA Lakers 81:96
Golden State - LA Clippers 132:102

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert