Justin Shouse: Vissum af ljósi við enda ganganna

Justin Shouse gerði 28 stig í kvöld.
Justin Shouse gerði 28 stig í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar, átti virkilega góðan leik þegar Stjarnan vann Keflavík öðru sinni í kvöld í átta liða úrslitum Dominos-deildarinnar í körfuknattleik. 

Shouse gerði 28 stig og átti fjórar stoðsendingar í 98:89-sigri Stjörnunnar en liðið vann einnig fyrsta leik liðanna í Keflavík. Næsti leikur verður í Keflavík á föstudagskvöldið en vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslit. Stjarnan hefur náð að bæta leik sinn verulega undanfarið en liðið hafnaði í 7. sæti í deildarkeppninni en Keflavík í 2. sæti. 

„Okkur leist ágætlega á þessa niðurstöðu þegar hún lá fyrir að deildarkeppninni lokinni þrátt fyrir að Keflavík hafi unnið báða leikina gegn okkur í deildinni. Við spiluðum hörkuleik gegn þeim í janúar og okkur hefur gengið vel á móti þeim síðustu tvö árin. Við erum að spila gegn mjög góðu liði og við erum ekki búnir að slá þá út en við erum að ná okkur á strik á réttum tímapunkti. Ef okkur tekst að klára dæmið á föstudaginn þá yrði það stór stund fyrir félagið eftir afar erfiðan vetur,“ sagði Shouse í samtali við mbl.is í kvöld en hann sagði þjálfarana hafa haldið mönnum við efnið þegar illa gekk. 

„Þjálfararnir ræddu málin við okkur og lögðu áherslu á að enn væri ljós við enda ganganna. Við yrðum bara að sjá hverjir yrðu andstæðingar okkar í úrslitakeppninni og takast á við það. Okkur hefur gengið býsna vel í úrslitakeppninni þau ár sem ég hef verið í Garðabænum. Hið sama virðist vera upp á teningnum að þessu sinni þó svo að við séum ekki búnir að slá Keflavík út. Við vitum að þeir vilja ekki fara strax í sumarfrí en við þurfum að hugsa um verðlaunin sem í boði eru og einbeita okkur að því að spila körfubolta,“ sagði Justin Shouse sem virðist vera búinn að ná sér af þeim ökklameiðslum sem hrjáðu hann á miðju tímabili.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert