Logi: Ætlum ekki að koma aftur hingað

Logi Gunnarsson skoraði 12 stig í kvöld, tók 7 fráköst …
Logi Gunnarsson skoraði 12 stig í kvöld, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. mbl.is/Ómar

„Við ætlum ekki að koma aftur hingað,“ sagði Logi Gunnarsson sem setti niður gríðarlega mikilvægt þriggja stiga skot í lok leiks Njarðvíkur og Hauka í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar í kvöld. Njarðvík vann leikinn 88:84 og getur klárað einvígið í Ljónagryfjunni á föstudaginn.

Svo merkilega vill til að báðir leikir liðanna í rimmunni til þessa, í Njarðvík á föstudaginn og í Hafnarfirði í kvöld, hafa farið nákvæmlega eins eða 88:84. Logi telur muninn á liðunum þó vera meiri en sem nemur fjórum stigum.

„Mér fannst að við ættum að geta klárað þá með fleiri stigum, komnir 11 stigum yfir þegar það var lítið eftir. Þeir tóku rosalega flott áhlaup á okkur en við sýndum líka rosalega mikinn styrk með því að setja niður stórar körfur og góð stopp þegar þeir settu upp þessa pressuvörn til að reyna að ná þessu niður,“ sagði Logi.

Erum með mjög breiðan hóp

„Við vorum svolítið á hælunum í byrjun, eins og síðast, en komum alltaf sterkir tilbaka og það er mikill styrkur hjá okkur að geta sett vörnina svona í ákveðinn lás. Ég er bara mjög sáttur við að koma hingað og vinna, og þetta er það sem við vildum. Það er einn leikur eftir og við búumst við jafnmikilli baráttu þá og í fyrstu tveimur leikjunum,“ bætti Logi við.

Aðspurður hvort það væri sérstaklega mikilvægt fyrir Njarðvík að klára einvígið snemma, svo hægt væri að veita lykilmönnum liðsins hvíld þar sem mikið hefur mætt á þeim til þessa, sagði Logi:

„Ég tel okkur vera með mjög breiðan hóp. Við spiluðum á níu leikmönnum í dag og það sýnir rosalega mikla breidd finnst mér. Hann [Einar Árni þjálfari] náði að hvíla mig vel, og Elvar og Tracy, miðað við síðasta leik. Það voru margir að skila rosalega góðum mínútum; Magic [Baginski], Óli [Ólafur Helgi Jónsson], Gústi [Ágúst Orrason] og fleiri. Við erum mjög þéttir og ég er mjög ánægður með það. Þegar kemur í marga leiki í úrslitakeppninni þá nýtist það að vera með eins breiðan hóp og við erum með,“ sagði Logi.

Njarðvíkingar hittu aðeins úr einu þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik, og áttu raunar aðeins sex tilraunir. Í seinni hálfleik settu þeir hins vegar niður 6 þrista í 10 tilraunum.

„Við fengum ekki mikið af skotum fyrir utan og mér finnst það mjög gott að við séum þá ekki að taka erfið skot. Þau koma ef við höldum áfram að dæla boltanum inn á stóra manninn. Við gerðum það, hann er það sterkur að þeir þurfa að tvöfalda á hann, og þá bíðum við eftir að fá góð skot,“ sagði Logi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert