„Illt í hverjum einasta vöðva“

Pálína Gunnlaugsdóttir fyrir leikinn í kvöld.
Pálína Gunnlaugsdóttir fyrir leikinn í kvöld. Eggert Jóhannesson

Pálína Gunnlaugsdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, stóð fyrir sínu hjá Íslandi þegar liðið tapaði fyrir Slóvakíu í kvöld, 72:55, í fyrsta heimaleik Íslands í Evrópukeppni í rúm sex ár. Hún segir margt hafa mátt fara betur hjá liðinu, sem stóð þó engu að síður lengi vel í sterku liði Slóvaka.

„Við töpuðum örugglega tíu boltum bara úr innköstum, en mér finnst við eigum frekar að skora úr þeim. Það er skrítið að við höfum ekki náð að laga það til dæmis í seinni hálfleik, svo þetta er svolítið fúlt,“ sagði Pálína við mbl.is, en hún nefndi líka hversu erfitt er að eiga við stóra og sterka leikmenn Slóvaka. Henni fannst þær mega berja helst til of mikið á íslenska liðinu.

„Mér fannst það. Mér fannst við berjast vel, en þær eru bara með þvílíka yfirburði líkamlega. Ég held að mér sé illt í hverjum einasta vöðva, líka í handarbakinu, svo þær eru með yfirburði á því að vera sterkar og stórar,“ sagði Pálína, en sagði það þó ekki hafa skipt sköpum.

„Mér fannst þær mega liggja svolítið inni í teig. Við áttum erfitt með að hjálpa því stóru mennirnir voru í teignum, en það drap okkur ekki. Mér fannst sóknarleikurinn bara virkilega stirður og það vantaði meira framlag. Við þurfum að standa saman, spila saman og það þurfa fleiri en einn eða tveir leikmenn að ógna.“

Stolt af því að vera Íslendingur

Góður stuðningur áhorfenda vakti athygli, en tæplega tólf hundruð manns stóðu vel við bakið á liðinu. Pálína segir liðið hafa fundið fyrir því.

„Áhorfendurnir voru frábærir. Það var gríðarleg stemning að koma í Höllina, við komum tveimur tímum fyrir leik og við fundum lyktina að fólk væri á leiðinni hingað. Það hefur oft vantað áhorfendur með okkur, en þeir voru svo sannarlega með okkur í dag. Ég held að það sé vitundarvakning hjá þjóðinni fyrir körfubolta, og við höfum flott landslið bæði karla og kvenna.

Við megum vera ánægð með það. Það er frábært ef fólk hefur áhuga og vill koma og horfa á okkur, þá reynum við að gera okkar allra, allra besta. Ég er rosalega ánægð og bara stolt að vera Íslendingur,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert