James og Irving óstöðvandi

Kyrie Irving sækir að körfu Washington Wizards í leiknum í …
Kyrie Irving sækir að körfu Washington Wizards í leiknum í nótt. AFP

LeBron James og Kyrie Irving skoruðu samtals 66 stig fyrir Cleveland Cavaliers í nótt þegar toppliðið í Austurdeild NBA í körfuknattleik sigraði Washington Wizards á útivelli, 121:115.

James skoraði 34 stig og Irving gerði 32 en sá síðarnefndi er kominn á mikla siglingu eftir að hafa misst framan af tímabilinu vegna meiðsla. Þetta var aðeins sjöundi leikur hans en í síðasta leik gerði hann 25 stig. Cleveland hefur nú unnið fimm leiki í röð og er komið með 24 sigra í 33 leikjum. Aðeins tvö efstu lið Vesturdeildar hafa gert betur, Golden State Warriors (33/2) og San Antonio Spurs (31/6).

San Antonio vann Utah auðveldlega, 123:98, og hefur nú unnið 21 heimaleik í röð frá byrjun tímabilsins. Þar með jafnaði liðið félagsmet sitt. Tim Duncan skoraði 18 stig og David West var með 18 stig og 13 fráköst fyrir San Antonio.

Kevin Durant skoraði 26 stig fyrir Oklahoma City og tók 17 fráköst í öruggum sigri á Memphis, 112:94. Russell Westbrook var með 20 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar.

Úrslitin í nótt:

Miami - New York 90:98
Orlando - Indiana 86:95
Washington - Cleveland 115:121
Boston - Detroit 94:99
Brooklyn - Toronto 74:91
Minnesota - Denver 74:78
New Orleans - Dallas 91:100
San Antonio - Utah 123:98
Phoenix - Charlotte 111:102
Oklahoma City - Memphis 112:94
Portland - LA Clippers 98:109

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert