Sylvía Rún í úrvalsliði EM

Sylvía Rún (önnur frá hægri) átti frábært mót.
Sylvía Rún (önnur frá hægri) átti frábært mót. Ljósmynd/FIBA Europe

Sylvía Rún Hálfdanardóttir var valin í úrvalslið B-deildar Evrópumóts U-18 landsliða í körfuknattleik. Sylvía átti frábært mót með íslenska U-18 liðinu sem hafnaði í fjórða sæti á mótinu.

Íslenska liðið lék hreinan úrslitaleik gegn Bosníu í gær um þriðja sætið en sigurvegarinn fékk sæti í A-deild að ári. Bosnía sigraði 82:67 en fjórða sætið er engu að síður besti árangur kvennaliðs Íslands í þessum aldursflokki.

Sylvía Rún er 17 ára leikmaður Hauka. Hún var með 16,7 stig, 10,7 fráköst og 3,4 stolna bolta að meðaltali á Evrópumótinu og frammistaða hennar skilaði henni í úrvalslið mótsins.

Melisa Brcaninovic reyndist íslensku stelpunum erfið í bronsleiknum en þar skoraði hún 30 stig. Hún var valin besti leikmaður Evrópumótsins. Klara Lundquist og Emilia Stocklassa frá Svíþjóð og Elena Tsineke frá Grikklandi voru einnig í úrvalsliði B-deildar EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert