Skora á Hólmara að yfirgnæfa þá

Ingi Þór Steinþórsson stýrði Snæfelli til fyrsta bikarmeistaratitils liðsins á …
Ingi Þór Steinþórsson stýrði Snæfelli til fyrsta bikarmeistaratitils liðsins á síðasta ári. mbl.is/Golli

„Ef maður ætlar að verða bikarmeistari þá verður maður bara að vinna þá leiki sem settir eru á dagskrá fyrir mann,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, en liðið mætir Skallagrími í undanúrslitum Maltbikars kvenna í körfubolta í Laugardalshöll 8. febrúar.

Dregið var til undanúrslitanna í dag og í hinni rimmunni mætast Keflavík og Haukar. Báðir leikirnir fara fram í Laugardalshöll líkt og úrslitaleikurinn sem leikinn er laugardaginn 11. febrúar.

„Þetta verða tveir hörkuleikir. Haukarnir eru sýnd veiði en ekki gefin, þangað er að koma nýr erlendur leikmaður svo maður veit ekki hvar þær munu standa, en í ljósi stöðunnar í deildinni hafa hin þrjú liðin eflaust óskað sér þess að fá Hauka. Til að verða bikarmeistari verður maður hins vegar að vinna bestu liðin,“ sagði Ingi.

Um Vesturlandsslag verður að ræða hjá Snæfelli og Skallagrími og á bikardrættinum í dag grínuðust menn með það að hafa sameiginlegar rútuferðir í bæinn:

„Það var nú einhver húmor bara. Leikurinn er klukkan átta á miðvikudegi svo fólk á að geta klárað vinnuna og brunað suður. Ég vona bara að fólk fylli Höllina og búi til alvöru stemmningu. Þetta verður generalprufa fyrir bikarúrslitaleikinn og stuðningurinn skiptir miklu máli. Ég veit að stuðningsmenn Skallagríms munu fjölmenna og verða með mikil læti, svo ég skora á Hólmara að yfirgnæfa þá,“ sagði Ingi, sem líst vel á hið nýja „Final Four“-fyrirkomulag í bikarkeppninni:

„Ég er gamall og gróinn í þessu, en renni blint í sjóinn eins og aðrir. Ég held að stemmningin, umtalið og slíkt verði alveg frábært, en hvað gæðin í úrslitaleiknum varðar þá gæti þetta komið aðeins niður á honum. En þetta er svona úrslitakeppnisfílingur sem körfuboltafólk þekkir vel og mér líst vel á þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert