„Sætari sigur en í fyrra“

Finnur Freyr Stefánsson er orðinn vanur því að fagna sigrum …
Finnur Freyr Stefánsson er orðinn vanur því að fagna sigrum þrátt fyrir stuttan þjálfaraferil í meistaraflokki. mbl.is/Golli

Finnur Freyr Stefánsson stýrði KR til sigurs í bikarkeppninni annað árið í röð þegar liðið vann Þór frá Þorlákshöfn, 78:71, í úrslitaleiknum í Laugardalshöll. Finnur segist hafa verið rólegri fyrir úrslitaleikinn gegn Þór í fyrra en að þessu sinni.

„Á sama tíma í fyrra leið mér rosalega vel varðandi liðið. Við vorum rútíneraðir og vorum með lausnir á reiðum höndum. Mér leið því betur fyrir úrslitaleikinn í fyrra heldur en þennan. Í þetta skiptið kom Philip Alawoya til okkar fyrir stuttu síðan Jón Arnór kom inn eftir áramót og Pavel í nóvember. Við erum enn þá að læra á þetta lið og að því leytinu til er þessi sigur sætari. Annars er alltaf sætt að yfirgefa Höllina með bikarinn en að komast hingað þrjú ár í röð er svo langt frá því að vera gefið. Við erum gríðarlega stoltir af því,“ sagði Finnur í samtali við mbl.is í Laugardalshöll.

KR var stigi yfir að loknum fyrri hálfleik en náði undirtökunum í leiknum í þriðja leikhluta. Hvað gerði gæfumuninn í þriðja leikhluta? „Á sama tíma náðum við að binda vörnina saman og nokkur langskot duttu niður. Þegar einhverjar sex mínútur voru eftir þá fórum við svolítið frá því. Fórum að horfa upp á töfluna og ætluðum að reyna að hanga á forskotinu. Það kann aldrei góðri lukku að stýra. Þórsararnir eru góðir og komu til baka. Með góðum fráköstum náðum við að halda út,“ sagði Finnur sem nú stendur frammi fyrir því að eiga raunhæfa möguleika á því að vinna tvöfalt, tvö ár í röð. Kitlar sú tilhugsun hégómann í þjálfaranum?

„Einfalt eða tvöfalt, tvö ár í röð eða þrjú ár í röð. Þessar pælingar eru aukaatriði í mínum huga. Auðvitað skiptir máli að vinna og reyna að komast langt með sitt lið í þessum keppnum. Við gerum þetta á okkar strákum í bland við aðra og erum með marga uppalda leikmenn. Íþróttatímabilin eru svolítið þannig að maður fagnar sigrum ekki lengi því þá taka strax við æfingar fyrir næsta tímabil. Maður þarf að reyna að vera í núinu og njóta,“ sagði Finnur Freyr enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert