Tólfti bikarsigur KR

Jón Arnór Stefánsson var gríðarlega ánægður sigurinn, eins og sjá …
Jón Arnór Stefánsson var gríðarlega ánægður sigurinn, eins og sjá má. mbl.is/Golli

KR varð í dag bikarmeistari karla í körfubolta í tólfta sinn þegar liðið vann Þór frá Þorlákshöfn 78:71 í úrslitaleik bikarkeppni KKÍ, Maltbikarsins, í Laugardalshöll.  

KR var stigi yfir að loknum fyrri hálfleik 35:34 en þá höfðu Þórsarar haft frumkvæðið lengst af. Jón Arnór Stefánsson lét til sín taka í seinni hálfleik og skoraði sex stig á stuttum tíma þegar KR náði smá forskoti í þriðja leikhluta. KR náði mest fimmtán stiga forskot í síðari hálfleik en Þórsarar lögðu aldrei árar í bát. Þeim tókst að minnka muninn í síðasta leikhlutanum. Þegar um 90 sekúndur voru eftir var staðan 76:71 og Þórsarar fengu tvö tækifæri til að minnka muninn frekar en það tókst ekki og þeir þurftu að sætta sig við silfurverðlaun í keppninni annað árið í röð. 

KR er bikarmeistari annað árið í röð og liðið var í raunar í bikarúrslitaleik þriðja árið í röð. Jón skoraði 19 stig, gaf 8 stoðsendingar og stal boltanum einu sinni í leiknum. Philip Alawoya var stigahæstur hjá KR með 23 stig. Tobin Carberry skoraði 28 stig fyrir Þór og Emil Karel Einarsson gerði 15 stig. Hann hafði sett niður fjóra þrista þegar skammt var liðið af þriðja leikhluta en náði ekki að bæta við eftir það. 

Lið KR: Brynjar Þór Björnsson, Arn­ór Her­manns­son, Jón Arn­ór Stef­áns­son, Þórir G. Þor­bjarn­ar­son, Snorri Hrafn­kels­son, Karvel Ágúst Schram, Darri Hilm­ars­son, Vil­hjálm­ur Kári Jens­son, Pavel Ermol­inski, Sig­urður Á. Þor­valds­son, Sigvaldi Eggertsson, Phil­ip Alawoya. Þjálfari KR er Finnur Freyr Stefánsson.

Lið Þórs: Benja­mín Þorri Benja­míns­son, Bald­ur Þór Ragn­ars­son, Emil Kar­el Em­ils­son, Ragn­ar Örn Braga­son, Hall­dór Garðar Her­manns­son, Magnús Breki Þórðar­son, Styrm­ir Snær Þrast­ar­son, Tobin Car­berry, Davíð Arn­ar Ágústs­son, Grét­ar Ingi Er­lends­son, Þor­steinn Már Ragn­ars­son, Ólaf­ur Helgi Jóns­son, Maciej Stan­islav Bag­inski. Þjálf­ari Þórs er Ein­ar Árni Jó­hans­son.  

Textalýsing mbl.is:

40. mín: Leiknum er lokið. KR sigraði 78:71 og er bikarmeistari annað árið í röð. 

40. mín: Staðan er 76:71 fyrir KR. Emil fékk opið þriggja stiga skot en hitti ekki. 16 sekúndur eftir og KR með boltann. 

40. mín: Staðan er 76:71 fyrir KR. Ekkert gengur hjá KR-ingum í sókninni. Þórsarar eru með boltann og 31 sekúnda eftir. Þeir taka leikhlé. Frá síðustu færslu komst Þór í sókn en þristur frá Carberry rataði ekki rétta leið. 

39. mín: Staðan er 76:71 fyrir KR. Sókn KR gekk ekki upp, Carberry fór á vítalínuna en klikkaði á öðru skotinu. 

39. mín: Staðan er 76:70 fyrir KR. Þórsarar hafa minnkað muninn niður í sex stig. 1,36 mínútur eftir og KR tekur leikhlé. Carberry er kominn með 27 stig. Smá von fyrir Þór. 

37. mín: Staðan er 73:63 fyrir KR. Þórsarar reyna eins og þeir geta og hafa nú sett tvo þrista á skömmum tíma. Munurinn er samt ennþá talsverður og ekki útlit fyrir að KR-ingar fari á taugum.

34. mín: Staðan er 70:55 fyrir KR. Jón Arnór var að skora laglega þriggja stiga körfu og munurinn er fimmtán stig. Þessi var mikilvæg. 

32. mín: Staðan er 61:52 fyrir KR. Nú kom smá meðbyr með Þórsurum. Eftir að hafa ekki skorað körfu í langan tíma þá hafa þeir nú skorað sex stig í röð og KR tekur leikhlé. Munurinn er nú minni en tíu stig sem getur hafa sálfræðileg áhrif. 

Lykilmenn liðanna Tobin Carberry og Jón Arnór Stefánsson eigast við …
Lykilmenn liðanna Tobin Carberry og Jón Arnór Stefánsson eigast við í úrslitaleiknum. mbl.is/Golli

30. mín: Staðan er 61:46 fyrir KR. Þriðja leikhluta er lokið. Vandséð er hvernig Þórsarar geta unnið sig út úr þessari stöðu á móti þessu firnasterka KR-liði. 

28. mín: Staðan er 56:43 fyrir KR. Skyndilega virðast KR-ingar vera búnir að leggja grunn að sigri. Pavel gerði mikilvæga körfu og fékk víti að auki. Virðist það hafa kveikt hressilega í KR-liðinu sem nú gengur á lagið. Ólafur Helgi er kominn með 4 villur hjá Þór. 

27. mín: Staðan er 47:43 fyrir KR. Sex stig frá Jóni á skömmum tíma. Þristur og nú var brotið á Jóni í þriggja stiga skoti og hann skilaði vítunum þremur í körfuna. Maciej er búinn að skora sína fyrstu þriggja stiga körfu í leiknum og vonandi fyrir Þórsara hitnar hann núna en fyrstu fjögur þriggja stiga skot hans geiguðu. 

25. mín: Staðan er 41:39 fyrir KR. Emil gerði sína fjórðu þriggja stiga körfu og er með 15 stig alls. Þórsarar eru ekki af baki dottnir en mér finnst bikarmeistararnir vera einbeittari núna en í upphafi leiks. 

22. mín: Staðan er 39:34 fyrir KR. Vesturbæingar byrja af síðari hálfleikinn af krafti og skora fyrstu fjögur stigin. 

20. mín: Staðan er 35:34 fyrir KR. Fyrri hálfleik er lokið. KR-ingar eru yfir að honum loknum sem er eiginlega magnað því manni hefur ekki fundist KR-liðið ná sér almennilega á strik og Þórsarar hafa verið með yfirhöndina lengst af. Emil Karel hefur skilað 12 stigum hjá Þór sem og Carberry en Maciej er aðeins með 2 stig og hefur hitt illa. Ólafur Helgi og Grétar eru með 2 villur hvor en þeir mega ekki báðir lenda í villuvandræðum ef Þór á að vinna bikarinn. Hjá KR hafa átta leikmenn skorað stig og það er afskaplega jákvætt, sérstaklega í úrslitaleik. Brynjar er með 3 villur og Pavel 2 villur. Alawoya hefur ekki verið sannfærandi en Sigurður Þorvalds kom sterkur inn á af bekknum. Jón Arnór er með 6 stig og eitthvað segir mér að hann muni taka fleiri skot þegar á líður. 

18. mín: Staðan er 34:30 fyrir Þór. Áhugaverð staða. Þórsarar náðu sjö stiga forskoti en Siggi Þorvalds setti niður sinn annan þrist og minnkaði muninn niður í fjögur stig. 

15. mín: Staðan er 25:25. Þórsarar komust yfir á ný en Philip Alawoya var að jafna fyrir KR en hann hefur átt erfitt uppdráttar hingað til í leiknum. 

12. mín: Staðan er 21:18 fyrir KR. Þórir jafnaði af vítalínunni og Sigurður Þorvalds kom KR yfir með þriggja stiga körfu. Ekki slæmt að geta skipt þessum tveimur inn á af bekknum. 

10. mín: Staðan er 18:16 fyrir Þór. Fyrsta leikhluta er lokið. KR-ingar hafa lagað stöðuna. Darri skoraði þvílíka stemningskörfu þegar hann setti niður þrist á síðustu sekúndu leikhlutans. Brynjar Þór er nú þegar kominn með 3 villur sem er alvarlegt mál fyrir KR. Ólafur Helgi er með 2 villur hjá Þór en hann er líklega öflugasti varnarmaður liðsins og þarf að gæta sín. Þórsarar mega illa við því að Ólafur og Grétar lendi í villuvandræðum. 

8. mín: Staðan er 17:9 fyrir Þór. KR-ingar eru aðeins yfirvegaðari í sókninni núna. 

5. mín: Staðan er 14:4 fyrir Þór. Óskabyrjun Þórsara. Emil búinn að setja tvo þrista en hann skilaði að mínu mati ekki nógu miklu í úrslitaleiknum í fyrra og hann ætlar greinilega að sjá til þess að framlag hans verði meira í ár. Carberry var að setja niður þrist og Finnur Freyr grípur inn í og tekur leikhlé. 

4. mín: Staðan er 8:4 fyrir Þór. KR-ingar hitta illa í upphafi leiks. Emil hefur gert sex stig og Carberry er kominn á blað. 

3. mín: Leikurinn er hafinn. Emil Karel skorar fyrstu körfuna fyrir Þór. Karfa og vítaskot að auki sem hann setti niður. Fyrstu sjö sóknir liðanna misheppnuðust!

Halldór Garðar sækir að körfu KR en Brynjar Þór er …
Halldór Garðar sækir að körfu KR en Brynjar Þór er til varnar. mbl.is/Golli

0. mín: Korter þar til leikurinn á að hefjast. Leikmenn eru farnir til búningsherbergja eftir upphitun. Fólk er farið að týnast upp í stúku en ennþá er laust í um það bil 1/4 af stúkunni sýnist mér. Stuðningsmenn liðanna fara líklega langt með að fylla höllina eins og í fyrra. 

0. mín: Á leið sinni í bikarúrslitin slógu Þórsarar út úrvalsdeildarliðin Keflavík og Grindavík en einnig 1. deildarlið FSu. KR-ingar hafa hins vegar farið óvenjulega leið i úrslitin og mættu eingöngu liðum úr neðri deildunum: Gnúpverjum, Fjölni, Hetti og Val. 

0. mín: Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, er á leiksskýrslu en hann gat ekki leikið gegn Val í undanúrslitunum vegna meiðsla. 

0. mín: Saga liðanna er ólík. Þórsarar hafa aldrei orðið bikarmeistarar og eini bikarúrslitaleikurinn til þessa var í fyrra. KR hefur ellefu sinnum orðið bikarmeistari og nítján sinnum leikið til úrslita. KR-ingum hefur þó gengið upp og ofan í síðustu úrslitaleikjum. Þeir unnu í fyrra og árið 2011 en hafa tapað fimm af síðustu sjö bikarúrslitaleikjum sínum. Síðast fyrir tveimur árum en KR er í úrslitum keppninnar þriðja árið í röð. 

0. mín: KR er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari. Þessi sömu lið mættust í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöll fyrir ári síðan og þá hafði KR betur eftir jafnan leik 95:79. 

Sigurður Þorvaldsson gerði tvær þriggja stiga körfur í fyrri hálfleik.
Sigurður Þorvaldsson gerði tvær þriggja stiga körfur í fyrri hálfleik. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert