Njarðvík missir af úrslitakeppninni

Þór úr Þorlákshöfn sigraði Njarðvík 83:70 í lokaumferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, í Iceland Glacial-höllinni í Þorlákshöfn. Þar með gerðu Þórsarar út um vonir Njarðvíkinga að komast í úrslitakeppnina. ÍR og Þór Akureyri ná síðustu sætunum í úrslitakeppninni. 

Þór er með 24 stig í 5. sæti og mætir Grindavík í úrslitakeppninni sem hafnaði í 4. sæti. Grindvíkingar eiga því heimaleikjaréttinn. Njarðvík er með 20 stig í 9. sæti og þurfti að vinna til að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina, en um leið treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

Þórsarar voru með forystu mest allan leikinn og náðu mest ellefu stiga forskoti. Lengst af var þó munurinn minni og nokkrum sinnum aðeins eitt stig. Njarðvík náði loksins að jafna leikinn í stöðunni 67:67 en þá komu tveir þristar frá Þórsurum og þessi tvö skot gerðu eiginlega útslagið en þá voru rúmar 2 mínútur eftir. 

Þessi niðurstaða er súr fyrir landsliðsmanninn Loga Gunnarsson sem hefur átt mjög gott tímabil og er stigahæsti Íslendingurinn í deildinni með 20 stig að meðaltali. Logi reyndi eins og hann gat í Þorlákshöfn í kvöld, barðist vel og skoraði 27 stig. Var hann stigahæstur Njarðvíkinga. Myron Dempsey kom næstur með 18 stig. 

Kaldhæðnislegt er að Njarðvíkingarnir í liði Þórs voru mjög atkvæðamiklir. Ólafur Helgi Jónsson og Maciej Baginski skoruðu 16 stig hvor en Tobin Carberry var stigahæstur með 22 stig. Hann lét mun meira að sér kveða í síðari hálfleik og í síðasta leikhlutanum kom Halldór Garðar Hermannsson með mikilvægar þriggja stiga körfur. 

Þór Þ. 83:70 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert