Frábært fyrir okkur gömlu karlana

Justin Shouse skoraði níu stig í kvöld.
Justin Shouse skoraði níu stig í kvöld. Árni Sæberg

„Við hefðum viljað hafa þetta þægilegra og ekki gefa þeim möguleika á að jafna leikinn í blálokin. Það er búið að vera saga einvígisins að menn eru að klikka úr opnum skotum. Við erum að sjálfsögðu ángæðir með úrslitin og leikmenn sem stigu upp,“ sagði Justin Shouse, leikmaður Stjörnunnar, eftir 75:72 sigur á ÍR í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í kvöld. Stjarnan tryggði sér sæti í undanúrslitum með sigrinum í dag, en einvígið fór 3:0. 

„Eysteinn skoraði mikilvægan þrist undir lokin og Anthony Odunsi fékk mörg mikilvæg víti þegar leikurinn var jafn og spennandi. Hlynur var svo að gera það sem Hlynur gerir, hann spilaði ótrúlega vörn, skoraði mikilvæg stig og átti góðar sendingar. Við erum hæstánægðir með að vera komnir í undanúrslit, það er allt of langt síðan síðast.“

Shouse segir það mikilvægt að klára einvígið í þremur leikjum, til að liðið hvílist sem mest. 

„Það er frábært fyrir okkur gömlu karlana að klára þetta í þremur leikjum, nú fáum við tækifæri til að hvílast fyrir undanúrslitin. Þetta var erfið sería, allir leikirnir réðust á síðustu tveimur mínútunum. ÍR stóð sig frábærlega undir lok tímabilsins og það var stórt að vinna þetta lið í þremur leikjum. Matthías er rosalega góður og hann verður stjarna í þessari deild. Quincy og Danero eru svo sterkir, en það er ljóst að þetta verður ekki léttara eftir þennan leik.“

Shouse var frá í sex vikur vegna höfuðmeiðsla og er hann gríðarlega ánægður með að vera kominn til baka. 

„Ég er búinn að skemmta mér konunglega síðustu tíu daga. Það var erfitt að vera frá í sex vikur. Ég tek því ekki sem sjálfsögðum hlut að fá að spila núna og ég nýt þess mikið að fá að æfa og vera með strákunum og fá að taka þátt í leiknum sem ég elska.“ 

„Það eru meiri líkur en minni að ég meiðist aftur ef ég legg mig ekki 110% fram. Ég er búinn að fá mörg höfuðhögg en þau hafa öll verið furðuleg slys. Það getur allt gerst í íþróttum og maður verður að njóta þess að spila þegar maður er heill.“

Hann hrósaði svo stuðningsmönnum beggja liða í leikslok. 

„Stuðningsmenn beggja liða hafa verið ótrúlegir. Þetta er það sem maður hugsar um í sumarfríinu. Það er gaman að heyra trommurnar og ég hlakka til að fá að spila fyrir þessa stuðningsmenn aftur,“ sagði Shouse. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert