Fyrsta markmiði náð en stefna enn lengra

Tryggvi Snær í leiknum gegn Svíum í gær
Tryggvi Snær í leiknum gegn Svíum í gær Ljósmynd/FIBA

„Tilfinningin er geggjuð,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið en hann fór mikinn í mögnuðum sigri U20 ára landsliðsins gegn Svíum í gær. Íslensku strákarnir unnu þá stórsigur, 73:39, á Evrópumóti U20 ára landsliða á Krít og tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum mótsins.

Ísland lenti undir snemma leiks, 14:2, en þá hrukku strákarnir í gang og það varð ekki aftur snúið. En hvað gerðist eiginlega á þessum kafla?

„Þetta er bara stemningin. Á sama tíma og það er fáránlegt að tapa fyrstu mínútunum með svona miklum mun lærðum við strax af þessu og við erum mjög fljótir að átta okkur á hlutunum. Þetta var í fyrsta lagi algjör liðssigur. Vörnin er allt hjá okkur, þeir skora undir 40 stig og það er alveg fáránlegt að halda liðum þannig,“ sagði Tryggvi Snær sem skoraði 13 stig og tók 12 fráköst en Kári Jónsson var stigahæstur með 15 stig.

Fyrsta markmið í höfn

En það er ekki einungis það að Ísland er komið í átta liða úrslitin heldur tryggir það U20 ára liðinu einnig áframhaldandi veru í A-deild Evrópumótsins.

„Þetta var fyrsta markmið flestra, en auðvitað er trúin að fara hærra og ég sé alveg fyrir mér að við getum spilað um sæti ef við hittum á góða leiki og spilum þessa vörn sem við höfum gert síðustu tvo leiki,“ sagði Tryggvi.

Sjáðu viðtalið við Tryggva í íþróttablaði Morgunblaðsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert