Þetta verður nýtt ævintýri fyrir mig

Kristófer Acox á æfingu með landsliðinu.
Kristófer Acox á æfingu með landsliðinu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Við erum búnir að eiga margar góðar æfingar og allir mættu í góðu formi og því hefur tempóið og boltinn verið góður. Við erum í góðu standi," sagði Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta við mbl.is í dag. Liðið undirbýr sig nú af krafti fyrir Evrópumótið sem fram fer í Finnlandi haust. 

„Ég hef verið að lyfta og æfa einn ásamt því að ég var með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum, þar sem ég fékk að hlaupa meira. Annars hef ég líka verið með í bolta með félögunum og passað að borða og drekka nóg."

Ísland mætir Belgíu í tveimur leikjum hér á landi í vikunni. 

„Við spiluðum tvisvar við þá í fyrra og þá var meira undir en er núna. Ég veit ekki hvernig þeirra lið er skipað og hvort þeir séu með fullskipað lið eða hvort þeir líti á þetta sem æfingu. Við spilum þessa leiki til að vinna og förum í þá af fullum krafti.

Eftir leikina við Belga taka við ferðalög til Rússlands, Litháen og Ungverjalands. Kristófer var með blendnar tilfinningar varðandi ferðalögin. 

„Við erum að fara út um allt. Ég er svolítið flughræddur og því ekki spenntur fyrir þessum ferðalögum," sagði hann léttur. „Það er hins vegar alltaf gaman að ferðast og sjá nýja staði.

Kristófer spilar með KR í vetur, en hann var með liðinu í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð. Hann er spenntur fyrir því að taka heilt tímabil á Íslandi. 

„Ég er mjög spenntur fyrir því og ég get ekki beðið eftir því að fá að byrja og taka heilt tímabil í stað þess að koma inn í restina eins og ég gerði í apríl. Það verður nýtt ævintýri fyrir mig. Ég vona að ég komist út eftir það, ef allt gengur upp og ég spila eins og ég get spilað, þá get ég vonandi komist lengra.

Hann fylgdist vel með U20 ára landsliðinu sem náði áttunda sæti á EM. 

„Ég reyndi að horfa á alla leiki sem ég gat, það var frábært að fylgjast með þeim og þá sérstaklega Tryggva, hann kom mjög flottur inn. Hann stimplaði sig inn sem einn besti leikmaðurinn á hans aldri í Evrópu, hið minnsta. Það verður gaman að fá hann upp í A-landsliðið, sagði Kristófer.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert