„Allir eru óeigingjarnir“

Emil Barja í leiknum í dag.
Emil Barja í leiknum í dag. mbl.is / Hari

Emil Barja var hinn ánægðasti með frammistöðu Hauka gegn Njarðvík í dag eins og gefur að skilja enda unnu Haukar 108:75 þegar liðin mættust í Dominos-deildinni í körfuknattleik. 

Haukar unnu Íslands- og bikarmeistara KR á útivelli á fimmtudagskvöld og í dag kom stórsigur á Njarðvík. „Þetta er mjög gott. Við vinnum hvaða lið sem er eins og við erum að spila þessa dagana. Við erum með svo marga góða leikmenn að við látum bara boltann ganga þar til við finnum þann sem er í besta skotfærinu. Allir eru óeigingjarnir og enginn ætlar sér að skora 30 stig og vinna leikinn á eigin spýtur. Kaninn okkar, Paul Jones III, spilaði til dæmis mjög vel en skoraði ekki nema sjö stig. Ég er bara mjög ánægður með liðið,“ sagði Emil þegar mbl.is spjallaði við hann á Ásvöllum í dag en Emil skoraði 10 stig í leiknum, gaf sex stoðsendingar og tók sjö fráköst. 

Njarðvíkingurinn Maciej Baginski sagði Njarðvíkinga ekki hafa lagt sig nægilega fram í dag. Leikurinn hafi verið lagður ágætlega upp en við leikmennina sjálfa sé að sakast. „Þetta er undir okkur leikmönnum komið. Við vorum skrefinu á eftir og enginn kraftur í okkur. Líklega er skýringuna að finna í hausnum á okkur,“ sagði Maciej og hann sagði sóknarleikinn einnig hafa spilað inn í niðurstöðuna þótt vandræði Njarðvíkinga hefðu verið meira áberandi í vörninni. „Þegar við tökum skot fáum við færri hraðaupphlaup á okkur. Þeir voru duglegir að keyra á okkur vegna þess að skotin okkar voru ekki eins góð og þau hafa verið í síðustu leikjum. Þeir nýttu sér það til hins ýtrasta,“ sagði Maceij Baginski sem skoraði átta stig fyrir Njarðvík.

Maciej Baginski
Maciej Baginski mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert