„Þetta svíður rosalega“

Martin Hermannsson stekkur upp að körfu Búlgaríu í kvöld.
Martin Hermannsson stekkur upp að körfu Búlgaríu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru bara öll neikvæðu lýsingarorðin sem þú finnur,“ sagði Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við mbl.is eftir grátlegt tap Íslands fyrir Búlgaríu í undankeppni HM í Laugardalshöll í kvöld, 77:74.

„Þetta svíður rosalega, og meira en tapið fyrir Tékkum úti. Við vorum ákveðnir í að passa heimavöllinn og sérstaklega gegn þessu liði, enda finnst mér við vera betri. En þeir nýttu sér okkar veikleika og settu stór skot,“ sagði Martin.

Íslenska liðið virtist vera með leikinn í hendi sér, en á síðustu þremur mínútunum eða svo sigu Búlgarar fram úr og unnu. Hvað gerðist?

„Mér fannst alltaf þegar við vorum að komast á skrið, þá hittu þeir alltaf úr erfiðum skotum. Við náðum aldrei almennilegu flugi, og þetta er ekki lélegt lið sem við vorum að spila á móti. Við bara vorum klaufar, sérstaklega í sókninni í lokin. Þegar við hefðum átt að vera tíu stigum yfir þá var samt jafnt, og það er dýrt,“ sagði Martin.

Eigum að geta gert miklu betur

En hvernig er það að missa leikinn út höndum sér en reyna samt að vera skynsamur og vinna hann til baka, í stað þess að lenda í óðagoti?

„Það er ákveðin kúnst. Ég veit ekki hvort maður skrifi það á reynsluleysi, en við vorum með ungt lið inn á og lærum af þessum ákvörðunum. En við erum það góðir í körfubolta að við eigum að geta gert miklu betur en við gerðum. En maður þarf að setjast yfir þennan leik og vinna þá svo með fimm úti,“ sagði Martin.

Ísland hefur tapað báðum fyrstu leikjum sínum til þessa, hvernig horfir riðillinn við Martin?

„Mér finnst við geta unnið öll liðin. Þó að við höfum tapað með 20 gegn Tékkum vorum við inni í leiknum allan tímann. Við getum unnið þá hérna heima og Búlgara úti, og getum unnið Finna. Við erum ennþá inni í þessu og áfram gakk,“ sagði Martin við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert