Ótrúlegur sigur á Ítölum

Elvar Már Friðriksson sækir að körfu Ítala en hann skoraði …
Elvar Már Friðriksson sækir að körfu Ítala en hann skoraði 25 stig í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland vann magnaðan sigur á Ítalíu, 107:105, í tvíframlengdum leik í H-riðli undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfuknattleik í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld.

Ísland er þá komið í annað sæti riðilsins með tvo sigra. Rússar eru með þrjá sigra, Ítalir einn og Hollendingar engan þegar fyrri umferðinni er lokið. Þrjú liðanna komast áfram á lokastig undankeppninnar og íslenska liðið stendur nú vel að vígi í þeirri baráttu.

Ítalir byrjuðu betur og komust í 6:0. Þeir voru yfir nær allan fyrsta leikhlutann þar til íslenska liðið tók góðan sprett á lokakaflanum og var yfir, 21:18, að leikhlutanum loknum.

Annar leikhluti þróaðist síðan enn frekar Íslandi í hag og staðan var orðin 44:33 þegar flautað var til hálfleiks. Tryggvi Snær Hlinason var í miklum ham undir báðum körfum og þegar gengið var til búningsherbergja var hann kominn með 13 stig, 8 fráköst og fjögur varin skot. Martin Hermannsson skoraði 12 stig en var þó aðeins með 40 prósent skotnýtingu í hálfleiknum.

Ítölsku leikmennirnir voru orðnir ansi pirraðir og ráðalitlir þegar leið á fyrri hálfleikinn og virtust eiga fá svör við fljótum og snöggum leikmönnum Íslands, sem og að koma skotum framhjá Tryggva. Þeir skoruðu aðeins fimmtán stig í öðrum leikhluta.

Tryggvi Snær Hlinason skorar í fyrri hálfleiknum í kvöld. Hann …
Tryggvi Snær Hlinason skorar í fyrri hálfleiknum í kvöld. Hann skoraði 32 stig og tók 21 frákast ásamt því að verja 5 skot. mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir kraftmikla byrjun gekk Ítölum ekkert að minnka muninn framan af þriðja leikhluta og Ísland komst mest fjórtán stigum yfir, 51:37. Tryggvi hélt uppteknum hætti og skoraði grimmt. Á lokakafla leikhlutans náðu Ítalir að minnka muninn í fimm stig en tvær þriggja stiga körfur frá Pavel Ermolinskij sáu til þess að þeim tókst ekki að jafna metin og staðan var 65:59, Íslandi í hag eftir þriðja hlutann.

Gríðarlega barátta var í síðasta leikhlutanum þar sem Ítalir lögðu allt í sölurnar til að jafna metin. Þeir minnkuðu muninn í þrjú stig, 67:64, en Ísland svaraði með frábærum kafla með Martin í aðalhlutverki og komst í 78:67. Ítalir héldu sér inni í leiknum með tveimur þriggja stiga körfum í kjölfarið.

Ítalir gerðu annað áhlaup, hittu vel úr þriggja stiga skotunum og munurinn fór niður í þrjú stig á ný, 82:79. Martin svaraði með tveimur vítaskotum, 84:79, þegar 90 sekúndur voru eftir. Ísland komst í 85:81 en Ítalir jöfnuðu, 85:85, þegar 27 sekúndur voru eftir og náðu svo boltanum strax. En skot þeirra geigaði og Jón Axel reyndi skot frá miðju sem var nærri því að fara ofaní. 85:85 og framlengt.

Ítalir komust strax yfir, í fyrsta sinn frá því á upphafsmínútunum, en Ísland svaraði því strax og eftir mikinn hasar komst íslenska liðið í 94:91 með enn einni troðslu Tryggva þegar 22 sekúndur lifðu af leiknum. Stefano Tonut jafnaði með þriggja stiga körfu þegar 10 sekúndur voru eftir, 94:94.

Ísland tók leikhlé fyrir lokasóknina. Jón Axel átti lokaskotið á síðustu sekúndunni en það geigaði og framlengt í annað sinn.

Íslenska liðið fyrir leikinn
Íslenska liðið fyrir leikinn mbl.is/Árni Sæberg

Ísland náði undirtökunum í seinni framlengingunni og Elvar Már kom Íslandi í 106:100 þegar 110 sekúndur voru eftir. Ítalir minnkuðu muninn í 106:104 þegar sjö sekúndur voru eftir. Eftir gríðarlegan hasar í lokin þar sem Martin og Nico Mannion settu niður sitthvort vítaskotið fagnaði Ísland einstaklega sætum sigri, 107:105.

Tryggvi átti stórbrotinn leik undir báðum körfum og sýndi hve gríðarlega sterkur hann er orðinn. Ítalir réðu lítið við hann en Tryggvi skoraði 34 stig og tók 21 frákast. Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannsson voru líka í stórum hlutverkum, Jón Axel Guðmundsson og Ægir Þór Steinarsson voru drjúgir og Pavel Ermolinskij var liðinu geysilega mikilvægur í varnarleiknum auk þess sem hann skoraði tvær þriggja stiga körfur þegar mikið var undir.

Ísland: Tryggvi Snær Hlinason 34/21 frákast, Elvar Már Friðriksson 25/7 stoðsendingar, Martin Hermannsson 23/7 stoðsendingar, Jón Axel Guðmundsson 11, Pavel Ermolinskij 6, Ægir Þór Steinarsson 6, Kári Jónsson 2.

Ítalía: Nico Mannion 23, Michele Vitali 22, Stefano Tonut 18, Alessandro Pajola 9, Amadeo Della Valle 9, Paul Biligha 9, David Alviti 4, Nicola Akele 4, Matteo Imbro 2, Amedeo Tessitori 2, Matteo Spagnolo 2, Raphael Gaspardo 1.

Ísland 107:105 Ítalía opna loka
99. mín. skorar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert