Þolir ekki samkeppni og meiðir menn

Kristófer Acox í baráttunni í þriðja leik Vals og Þórs …
Kristófer Acox í baráttunni í þriðja leik Vals og Þórs í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lárus Jónsson, þjálfari karlaliðs Þórs frá Þorlákshöfn í körfuknattleik, vandaði Kristófer Acox, fyrirliða Vals, ekki kveðjurnar eftir 94:103-tap liðsins í Þorlákshöfn í kvöld, sem þýðir að liðin munu mætast í oddaleik á Hlíðarenda á þriðjudagskvöld.

„Mér fannst við ekki vera að spila vel í þessum leik. Mér fannst við byrja leikinn vel, vorum að hitta vel en mér fannst Valsarar halda sér inni í leiknum með sóknarfráköstum og baráttu. Þannig gengu þeir á lagið.

Vörnin hjá okkur var slök í öðrum leikhluta og við vorum svolítið að reyna að bjarga hlutunum, hver og einn að reyna að bjarga hlutunum. Í seinni hálfleiknum voru Valsararnir komnir á bragðið og voru að spila vel.

Alltaf þegar við vorum að nálgast þá settu þeir stór skot. Mér fannst við laga aðeins frákastabaráttuna í seinni hálfleik með aðeins meiri baráttu, en það var bara of seint,“ sagði Lárus í samtali við mbl.is er hann var beðinn um að gera upp leikinn.

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í síðari hluta annars leikhluta skoraði Þór aðeins 4 stig á meðan Valur sallaði niður stigunum, sem þýddi að Valur leiddi með 17 stigum í hálfleik.

„Já, sóknin okkar var rosalega stirð á þessum tíma og þeir voru að sama skapi að hitta mjög vel. Ef þeir hittu ekki þá náðu þeir frákastinu og sendu hann út og þá hittu þeir. Einhvern veginn svona gekk þessi leikur.  Mér fannst vanta þessa baráttu hjá okkur, einhvern vilja,“ útskýrði Lárus.

Ofbeldi sem allir eru búnir að sjá

Spurður hvort að aukin barátta væri það helsta sem Þór þyrfti að laga fyrir oddaleikinn sagði hann:

„Já, það er bara svoleiðis. Vonandi náum við að láta Jordan Semple spila. Hann hefur auðvitað verið sá leikmaður sem hefur verið að taka þessi fráköst fyrir okkur.“

Í þriðja leik liðanna á fimmtudagskvöld fór Semple meiddur af velli strax í upphafi leiks eftir að hann meiddist á öxl. Hann varð fyrir meiðslunum eftir viðskipti við Kristófer, sem sleit sig harkalega frá Semple. Kristófer fór einmitt mikinn í frákastabaráttunni í kvöld, tók 19 slík.

Jordan Semple í leik með Þór gegn Haukum í átta …
Jordan Semple í leik með Þór gegn Haukum í átta liða úrslitum Íslandsmótsins. mbl.is/Arnþór Birkisson

 „Honum [Semple] var náttúrlega kippt út úr síðasta leik, sem var náttúrlega bara ofbeldi sem allir eru búnir að sjá. Þeim leikmanni hjá Val, honum tókst ætlunarverkið sitt.

Hann þolir ekki samkeppni þannig að hann meiðir menn og þá þarf hann ekki að spila við þá,“ sagði bersýnilega ósáttur Lárus um Kristófer.

Semple spilaði örlítið í kvöld en fljótlega kom í ljós að hann gekk ekki heill til skógar.

„Mér sýndist það allavega í kvöld. Við ætluðum að reyna að spila honum en við bara sáum það að það gekk ekki upp,“ sagði Lárus að lokum í samtali við mbl..is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert