Jókerþrenna í sterkum sigri

Nikola Jokic er afar erfiður viðureignar.
Nikola Jokic er afar erfiður viðureignar. AFP/Matthew Stockman

Serbinn Nikola Jokic var samur við sig þegar hann var með þrefalda tvennu í sigri Denver Nuggets á New York Knicks, 113:100, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Jókerinn skoraði 30 stig, tók 14 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Stigahæstur í leiknum var hins vegar liðsfélagi hans Michael Porter Jr. sem skoraði 31 stig og tók átta fráköst.

Hjá New York var Jalen Brunson atkvæðamestur með 26 stig og níu stoðsendingar.

Doncic í essinu sínu

Slóveninn Luka Doncic var afar nálægt þrennunni hjá Dallas Mavericks þegar liðið lagði Utah Jazz að velli, 113:97.

Doncic skoraði 34 stig, tók níu fráköst, gaf átta stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum.

Hjá Utah var Finninn Lauri Markkanen stigahæstur með 21 stig.

Damian Lillard fór þá fyrir Milwaukee Bucks þegar liðið lagði Brooklyn Nets að velli, 115:108.

Lillard skoraði 30 stig, gaf 12 stoðsendingar og stal boltanum tvisvar. Grikkinn Giannis Antetokounmpo bætti við 21 stigi, níu fráköstum og fimm stoðsendingum.

Hjá Brooklyn var Mikal Bridges stigahæstur með 24 stig og sex fráköst.

Úrslit næturinnar:

Denver – New York 113:100

Dallas – Utah 113:97

Milwaukee – Brooklyn 115:108

Orlando – New Orleans 121:106

Houston – Chicago 127:117

Phoenix – Atlanta 128:115

Washington – Sacramento 109:102

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert