Frá Þýskalandi til Keflavíkur

Hilmar Pétursson er búinn að semja við Keflavík.
Hilmar Pétursson er búinn að semja við Keflavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hilmar Pétursson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er á leið heim úr atvinnumennsku í Þýskalandi og hefur samið við Keflvíkinga til tveggja ára.

Hilmar kemur frá Münster í Þýskalandi þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö ár. Hann spilaði með Breiðabliki áður en hann fór utan og var áður í röðum Keflvíkinga tímabilið 2017-18 en lék einnig með Haukum þar sem hann er uppalinn.

Hjá Keflavík leikur Hilmar á ný undir stjórn föður síns, Péturs Ingvarssonar, eins og hjá Breiðabliki, og við hlið bróður síns, Sigurðar Péturssonar, sem er kominn í hóp lykilmanna Suðurnesjaliðsins.

Hilmar er 24 ára gamall leikstjórnandi eða skotbakvörður sem á fjóra A-landsleiki að baki. Þegar hann lék síðast á Íslandi, með Breiðabliki, skoraði hann tæplega 20 stig í leik að meðaltali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert