Vélhjólamót á Kirkjubæjarklaustri gekk vel

Mótorhjólamót var haldið á Kirkjubæjarklaustri um hvítasunnuhelgina og var mikill fjöldi keppenda eða 500 að tölu. Mótið sjálft var haldið í Vatnskarðshólum gegnt hótelinu að Efri Vík. Lögreglan á Hvolsvelli segir, að mótið hafi gengið mjög vel en eitthvað var um fót- og handarbrot meðal keppanda.

Lögreglan segir, að móttsvæðið hafi verið yfirfullt af fólki, svo og allir gististaðir í nágrenninu. Mikil ölvun var á svæðinu en dansleikur var í Kirkjuhvoli á laugardagskvöldið. Þetta gekk þó án stórra áfalla en eitthvað var um smá pústra og eignaspjöll á tjaldstæðinu.

Lögreglan naut aðstoðar fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en aðeins eitt slíkt mál kom upp á Klaustri þessa helgi og telst það upplýst. Þar voru aðilar á ferð með efni til eigin neyslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert