Ísland mætir Suður Kóreu í fyrramálið

Jung Suyoung sækir að dönsku vörninni í fyrradag. Hann var …
Jung Suyoung sækir að dönsku vörninni í fyrradag. Hann var markahæsti leikmaður Suður Kóreu gegn Dönum, skoraði níu mörk. Reuters

Íslenska landsliðið í handknattleik karla mætir Suður Kóreubúum klukkan sex í fyrramálið á Ólympíuleikunum í Peking. Með sigri getur íslenska landsliðið svo gott sem tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. Fylgst verður með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Sem kunnugt er það hefur íslenska landsliðið unnið tvo fyrstu leiki sína í keppninni. Lið Suður Kóreu lagði Evrópumeistara Dani í fyrradag, 31:30 eftir að hafa tapað fyrir heimsmeisturum Þjóðverja, 27:23, í fyrstu umferð.

Suður Kóreumenn hafa lagt mikið í undirbúning liðs síns að þessu sinni og stefna á að ná langt í keppninni eftir nokkur mögur ár í alþjóðlegri keppni.  Mikið gekk á áður en Suður Kóreumenn öðluðust keppnisrétt á leikunum og hrikti m.a. í stjórnkerfi Alþjóða handknattleikssambandsins um tíma vegna málsins. Forráðamenn Handknattleikssambands Suður Kóreu kærðu framkvæmd úrslitaleiks síns við Kúveit í Asíukeppninni í fyrrahaust þar þeir töldu ljóst að dómarar úrslitaleiksins hafi dregið taum Kúveita í leiknum. Á kröfu Suður Kóreu var fallist og Alþjóða handknattleikssambandið samþykkti að halda skyldi aðra  Asíukeppni í handknattleik snemma á þessu ári þar sem úr því fengist skorið hver keppti fyrir hönd Asíu á Ólympíuleikunum. Kúveitar, ásamt flestum öðrum handknattleiksþjóðum álfunnar, hunsuðu keppnina og fór svo að Japan og Suður Kórea voru einu þjóðirnar sem sendu lið til keppni. Suður Kórea vann auðveldan sigur á Japan í úrslitaleik og hreppti þar með sæti í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna.

Síðan þá hefur mikið verið lagt í undirbúning liðsins sem nú stígur fram á sviðið gegn íslenska landsliðinu. Óvæntur sigur á Dönum sýnir svo ekki verður um villst að Suður Kórea hefur á alvöru handknattleiksliði að skipa um þessar mundir. Það leikur hraðan handknattleik sem er í raun talsvert frábrugðin þeim evrópska handknattleik sem flestir leikmanna íslenska landsliðsins eru vanir.

Þekktasti leikmaður Suður Kóreu er örvhenta stórskyttan Kyung Shin Yoon sem leikið hefur í Þýskalandi í annan áratug. Hann er markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar frá upphafi. Lengst af var Yoon í herbúðum Gummersbach en flutti sig um set yfir til HSV Hamburg fyrir tveimur árum. Yoon sló fyrst í gegn á heimsmeistaramótinu hér á landi fyrir 13 árum og átti þá m.a. stórleik gegn Íslandi.  

Skömmu fyrir Ólympíuleikanna vann Suður Kórea landslið Póllands, 25:19, í æfingaleik sem undirstrikar styrk liðsins. Pólverjar er silfurverðlaunahafar frá síðasta heimsmeistaramótinu og jafnframt þátttakendur í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Peking. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert