Ásdís hefur lítið getað kastað spjótinu

Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. mbl.isKristinn

Ásdís Hjálmsdóttir, Íslandsmethafi í spjótkasti kvenna, er eini íslenski keppandinn sem á eftir að hefja keppni á Ólympíuleikunum. Ásdís keppir í undankeppninni á morgun, þriðjudag. Keppni hefst kl. 10:40 að kínverskum tíma eða kl. 2:40 aðfaranótt þriðjudags að íslenskum tíma.

„Ég mun örugglega finna fyrir einhverri spennu á morgun þegar ég mæti á keppnisvöllinn en mér líður vel og ég vona það besta,“  sagði Ásdís í dag við mbl.is en hún hefur  lítið getað kastað spjótinu á undanförnum fjórum vikum vegna meiðsla í olnboga.

„Ég meiddi mig á mótinu í Finnlandi þegar ég setti Íslandsmetið. Í næsta kasti eftir að ég setti metið fann ég verk í olnboganum. Það hefur gengið vel í sjúkrameðferðinni á undanförnum vikum en að sjálfsögðu hefur þetta raskað undirbúningnum hjá mér. Ég hef ekkert kastað á æfingum en að öðru leiti hef ég æft á fullu,“  sagði Ásdís en hún var á leið á æfingu í Ólympíuþorpinu þegar mbl.is ræddi við hana. „Í kvöld legg ég lokhöndina á undirbúninginn. Tek létta lyftingaæfingu og fer í gegnum atrennuna. Markmiðið er að gera sitt besta og sjá hvert það skilar mér.“

Að mati Ásdísar eru litlar líkur á því að meiðslin í olnboganum komi í veg fyrir að hún geti ekki kastað. „Það þarf eitthvað mikið að breytast til þess. Það er erfiðara að halda tækninni réttri með svona meiðsli en ég ætla að „grýta“ spjótinu eins langt og ég get í þessum þremur köstum sem ég fæ. Framhaldið verður bara að koma í ljós,“  sagði Ásdís.

Alls eru 54 keppendur í spjótkastkeppninni og keppir Ásdís í síðari hópnum og Íslandsmet hennar er 59,80 metrar. Hún er í 30. sæti yfir lengsta kastið á keppendalistanum en til þess að komast sjálfkrafa í úrslit þarf hún að kasta 61,50 metra eða að vera með eitt af 12 lengstu köstunum í undankeppninni.

Ásdís, er 23 ára gömul, og hefur hún aldrei áður keppt á Ólympíuleikum. Unnur Sigurðardóttir, flokksstjóri frjálsíþróttahópsins  í Peking, sagði í gær að Ásdís væri búinn að ná sér af þeim meiðslum hafa hrjáð hana að undanförnu í olnboga.

Íslandsmet Ásdísar er 59,80 metrar, en heimsmetið á Osleidys Menendez, 71,70 m., en hún á einnig Ólympíumet frá árinu 2004, 71.53 m.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert