„Þær eru allar bleyður“

Hope Solo með sárt ennið á meðan sænska liðið fagnar …
Hope Solo með sárt ennið á meðan sænska liðið fagnar af innlifun. AFP

Hope Solo, markvörður bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var allt annað en sátt eftir að liðið datt úr leik í 8 liða úrslitum á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu í kvöld.

Bandaríska liðið er ríkjandi ólympíumeistari í íþróttinni en liðið vann í London fyrir fjórum árum og var það því mikill skellur fyrir liðið að detta út fyrir Svíþjóð í kvöld.

Svíar unnu eftir vítaspyrnukeppni en bandaríska liðið fékk urmul af færum til þess að klára leikinn en gerði ekki.

Hope Solo gagnrýndi sænska liðið eftir leikinn og kallaði leikmenn liðsins bleyður. Það sauð á henni eftir leik.

„Við vorum mjög hugrakkar í þessum leik. Við fengum mörk tækifæri til þess að skora og lögðum allt í þetta. Við komum til baka og er ég afar stolt af liðinu. Við vorum að spila gegn fullt af bleyðum. Besta liðið vann ekki í dag, ég sver það,“ sagði Solo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert