Rosalega pirrandi að horfa upp á þetta

Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir.

„Þetta er bara rosalega pirrandi fyrir mann sem íþróttamann, að horfa upp á þetta,“ segir Ásdís Hjálmsdóttir, Íslandsmethafi í spjótkasti, þegar Morgunblaðið fékk hana til að ræða um lyfjamisnotkun frjálsíþróttamanna.

Ásdís, sem keppti í undankeppni spjótkasts á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt, eftir að Morgunblaðið fór í prentun, er útskrifaður lyfjafræðingur og hefur sterkar skoðanir á lyfjamisnotkunarmálum í íþróttaheiminum. Keppendur sem síðar hafa verið staðnir að ólöglegri lyfjanotkun hafa auk þess oftar en einu sinni kostað Ásdísi sæti í úrslitum á stórmóti og henni er málið því ekki síður hugleikið.

„Það eru stelpur í spjótkastinu sem ég viðurkenni að ég hef sett mjög stórt spurningarmerki við. Ein þeirra [innsk: Maria Abakumova] er þannig, að það voru bara allir að tala um það í „call room“ [innsk: herbergi sem keppendur bíða í áður en þeir fara út á völl að keppa] á stórmóti hvað þetta væri fáránlegt. Núna er sýni frá Ólympíuleikunum 2008, þar sem hún varð í 2. sæti, loksins að greinast jákvætt,“ sagði Ásdís, en Abakumova er rússnesk og var Rússum meinuð þátttaka í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum í Ríó vegna lyfjahneykslisins þar í land.

„Ef maður skoðar myndir af henni [Abakumovu] frá 2007 og 2008 sér maður hana fara úr því að vera mössuð stelpa yfir í að vera eins og karlmaður að keppa í vaxtarrækt, og bætti sig úr 64 metrum í 70 metra. Halló! Stelpan sem varð í 4. sæti á Ólympíuleikunum sagðist strax bíða eftir því að fá bronsmedalíuna sína í pósti, og núna loks er hún að fara að fá hana. Þetta er rosalega sorglegt,“ sagði Ásdís, sem eins og fyrr segir hefur sjálf fundið illa fyrir því á sínum ferli að þurfa að keppa við Abakumovu.

Nánar er rætt við Ásdísi í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert