Öruggur sigur gegn Andorra

Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson í leiknum í kvöld.
Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Ísland og Andorra mættust í körfuboltakeppni karla á Smáþjóðaleikunum í Laugardalshöll klukkan 19:30. Ísland sigraði 83:61 eftir að hafa verið yfir 47:33 að loknum fyrri hálfleik. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. 

Logi var stigahæstur með 16 stig og Kristófer Acox skoraði 11 í sínum fyrsta A-landsleik og tók 6 fráköst. Ragnar Nathanaelsson tók flest fráköst eða 7. Ægir Þór Steinarsson gaf 8 stoðsendingar. Allir í íslenska liðinu komust á blað í stigaskorun. 

Lið Íslands:

Brynjar Þór Björnsson, Ragnar Nathanaelsson, Jakob Örn Sigurðarson, Axel Kárason, Hlynur Bæringsson, Kristófer Acox, Helgi Már Magnússon, Sigurður Þorvaldsson, Elvar Már Friðriksson, Ægir Þór Steinarsson, Logi Gunnarsson, Martin Hermannsson.  

40. mín: Leiknum er lokið. Ísland vinnur öruggan sigur 83:61.

35. mín: Staðan er 74:54 fyrir Ísland. Elvar var að skora og þá eru allir leikmenn Íslands komnir á blað í stigaskorun. Logi er stigahæstur með 13 stig. 

30. mín: Staðan er 67:48 fyrir Ísland. Einungis síðasti leikhlutinn eftir og okkar menn ættu að landa þessum sigri örugglega úr því sem komið er. Andorra skoraði aðeins 15 stig annan leikhlutann í röð sem er jákvætt. Craig Pedersen hefur spilað á öllum í hópnum og dreifir álaginu vel.

29. mín: Staðan er 65:47 fyrir Ísland. Martin er aðeins að hitna. Setti niður þrist og gaf í framhaldinu skemmtilega stoðsendingu á Ragnar sem skoraði. Fyrstu stig þeirra beggja í kvöld. 

25. mín: Staðan er 54:43 fyrir Ísland. Andorra er að vinna sig æ betur inn í leikinn. Íslenska liðið er ekki öruggt með sigur þrátt fyrir að hafa náð tuttugu stiga forskoti í fyrri hálfleik. 

22. mín: Staðan er 50:38 fyrir Ísland. Ekki merkileg byrjun í síðari hálfleik. Mistök í vörn og sókn hjá íslenska liðinu. 

Ægir Þór Steinarsson byrjaði sem leikstjórnandi íslenska liðsins.
Ægir Þór Steinarsson byrjaði sem leikstjórnandi íslenska liðsins. mbl.is/Golli

20. mín: Staðan er 47:33 fyrir Ísland. Fyrri hálfleik er lokið. Andorra sótti í sig veðrið undir lok hálfleiksins. Átta leikmenn hafa skorað fyrir Ísland. Logi er með 11 stig og Axel kemur næstur með 8. Kristófer hefur tekið flest fráköst eða 5, en Hlynur og Helgi Magg hafa tekið 3 hvor. 

18. mín: Staðan er 47:27 fyrir Ísland. Gott forskot Íslendinga. Mér sýnist að leikmenn Andorra séu að verða svolítið pirraðir á þessari meðferð. Íslendingarnir eru grimmir, spila fast og dæla svo þriggja stiga skotunum í sókninni. 

15. mín: Staðan er 40:23 fyrir Ísland. Mikill kraftur í íslenska og flestir komnir í fínan takt við leikinn. Brynjar var að setja niður þrist. 

Hlynur Bæringsson, fyrirliði körfuboltandsins, var fánaberi Íslands á Smáþjóðaleikunum.
Hlynur Bæringsson, fyrirliði körfuboltandsins, var fánaberi Íslands á Smáþjóðaleikunum. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

10. mín: Staðan er 28:18 fyrir Ísland. Fyrsta leikhluta er lokið. Íslenska liðið hefur leikið glimrandi vel, sérstaklega í sókninni. Sóknarleikur Andorra er fínn en í vörninni ráða þeir illa við Íslendinga, alla vega hingað til. Hafa þeir brugðið á það ráð að skilja Íslendingana eftir opna fyrir utan þriggja stiga línuna. Okkar menn hafa nýtt sér það vel. Axel hefur til að mynda sett niður tvo þrista, en Ægir, Logi og Jakob eru einnig allir búnir að setja niður fyrir utan. Tilþrif leiksins hingað til áttu Ægir og Kristófer. Ægir sendi þá boltann upp að hringnum í hraðaupphlaupi og Kristófer kom svífandi og tróð með tilþrifum. 

4. mín: Staðan er 14:5 fyrir Ísland. Andorra tekur leikhlé. Ægir var að setja niður þrist og stemningin er mikil á íslenska bekknum. Menn eru greinilega vel gíraðir fyrir þetta sumarverkefni enda þurfa menn að sanna sig til að komast í EM-hópinn. 

3. mín: Staðan er 9:5 fyrir Ísland. Kristófer byrjar inn á í sinum fyrsta landsleik. Hann hefur þegar gert fjögur stig undir körfunni. Í seinna skiptið tróð hann af krafti eins og hann er þekktur fyrir. 

1. mín: Staðan er 3:0. Logi er búinn að taka tvo þrista og setti þann síðari niður.  

0. mín: Kristófer Acox leikur sinn fyrsta A.landsleik í dag og er að ég held eini nýliðinn í hópnum. 

0. mín: Jakob Örn Sigurðarson leikur í dag sinn 70. A. landsleik fyrir Ísland. Hann er engu að síður að leika sinn fyrsta leik á Smáþjóðaleikum sem er nokkuð athyglisvert. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert