BT Group vill reisa gagnamiðstöð á Íslandi

Breska fyrirtækið BT Group, áður Britsh Telecom, hefur gert samning við Data Íslandia um að gera hagkvæmniathugun á byggingu allt að 100 þúsund fermetra gagnamiðstöðvar á Íslandi. Verkefnið er unnið í samvinnu við sæstrengsfyrirtækið Farice og íslensk orku- og gagnavistunarfyrirtæki. Verði af þessum áformum gæti gagnamiðstöðin og tengd starfsemi skapað allt að 200 ný störf. Ein meginforsenda hennar er að nýr sæstrengur verði lagður til Íslands.

Data Íslandia er íslenskt félag sem veitir alþjóðlegum stórfyrirtækjum og opinberum stofnunum þjónustu við langtíma hýsingu á rafrænum gögnum og stýringu á þeim. Ætlunin er að fyrirtækið leiði umrætt verkefni og veita svo BT Group umbeðna þjónustu.

Sol Squire, framkvæmdastjóri Data Íslandia, segir að um margbrotið verkefni sé að ræða sem gefi gott tækifæri til að kynna samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi. Ásamt samstarfsaðilum á Íslandi hafi fyrirtækinu tekist að setja saman og kynna viðskiptaumhverfi á Íslandi sem vekti áhuga hjá BT Group. Aðeins er liðinn rúmur mánuður síðan Bretarnir höfðu fyrst samband og lýstu áhuga sínum.

Samkvæmt upplýsingum frá Data Íslandia liggja ekki fyrir tölur um hve stóra fjárfestingu er að ræða. Búist er við að hagkvæmniathugun verði lokið mánaðamótin janúar-febrúar á næsta ári, og þá liggi fyrir hver næstu skref verða. Ekki er farið að huga að staðsetningu undir gagnamiðstöðina.

BT Group er með höfuðstöðvar sínar í London og er eitt af stærstu fyrirtækjum í fjarskipta- og upplýsingatækni í heiminum, þjónustar milljónir viðskiptavina í Evrópu, Ameríku og Asíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK