Óbreyttir stýrivextir Seðlabanka Íslands

Seðlabankinn
Seðlabankinn mbl.is/Ómar

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum en vextirnir eru nú 14,25%, eins og á síðasta vaxtaákvörðunardegi þann 8. febrúar sl. Seðlabankinn hækkaði vextina síðast um 0,25% þann 21. desember síðastliðinn. Þá var um að ræða auka vaxtaákvörðunardag bankans.

Næsta ákvörðun bankastjórnar um stýrivexti verður tilkynnt miðvikudaginn 16. maí n.k.

Frá því Seðlabankinn hóf að hækka stýrivextina í maí 2004 hefur hann hækkað vextina alls átján sinnum, en þá voru þeir 5,3%.

Í dag klukkan 11 mun Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands kynna á fundi með fjölmiðlum efni Peningamála og rökin að baki ákvörðun bankastjórnar um vexti. Verður fundinum varpað beint á vef Seðlabanka Íslands.

Almennt var gert ráð fyrir því að bankinn héldi stýrivöxtum sínum óbreyttum. Í frétt Bloomberg-fréttastofunnar frá því í gær segir að gjaldeyrismiðlarar séu farnir að verja sig gegn því að Seðlabankinn muni innan tíðar lækka vextina. Þar segir einnig að það sem af er þessu ári hafi krónan hækkað næst mest allra gjaldmiðla í heiminum gagnvart evru og dollar, en erlendir fjárfestar hafa keypt mikið af krónum vegna hinna háu vaxta hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK