Óstöðugleiki fremur regla en undantekning

Sverrir Vilhelmsson

Reynslan frá því að gengi krónunnar var sett á flot í mars 2001 sýnir að gengissveiflur eru regla en ekki undantekning. Sú staðreynd að íslenska krónan er minnsta myntin í heiminum þar sem rekin er sjálfstæð peningastefna segir að sjálfsögðu allt sem segja þarf í þessum efnum. Þegar við bætist að vextir hér á landi eru með því hæsta sem þekkist þarf ekki að koma á óvart að óstöðugleikinn er fremur regla en undantekning, að því er segir í hagspá Landsbankans.

Björn Rúnar Guðmundsson, forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans, sagði á morgunfundi þar sem hagspá Landsbankans var kynnt að eiginlega megi tala um vítahring gengisóstöðuleika.

„Hættan er að við þessar aðstæður verði til einskonar vítahringur gengisóstöðugleika og verðbólgu sem erfitt getur verið fyrir yfirvöld peningamála að brjóta upp. Þróun síðustu ára er í raun ekki svo frábrugðin slíku ferli þar sem óstöðugt gengi, sérstaklega hinar öfgakenndu gengislækkanir, leiðir til verðbólguskots svipað og gerðist á síðasta ári. Til að bregðast við verðbólgunni hækkar Seðlabankinn vexti sem smátt og smátt leiðir til þess að gengið styrkist á nýjan leik.

Fyrr eða síðar kemur síðan að því að gengið leitar jafnvægis á nýjan leik með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu sem aftur kallar á viðbrögð Seðlabankans og svo koll af kolli.

Við slíkar aðstæður eru hendur Seðlabankans að vissu leyti bundnar þar sem hann getur í raun ekki gert annað en brugðist við með þeim hætti sem hér er lýst, að minnsta kosti þegar innlendar efnahagsaðstæður eru með þeim hætti að útilokað er annað en að viðhalda aðhaldssamri peningastefnu. Eina leiðin til að brjótast út úr slíkum vítahring er að ná fram hraðkælingu hagkerfisins til þess að draga úr þörf á vaxtahækkun í kjölfar verðbólguskots vegna gengislækkunar. Staða efnahagsmála hér á landi við núverandi aðstæður býður því miður ekki upp á slíkt enn sem komið er og því er hættan á enn einni ferð í gengis- og verðbólgu hringekjunni allt eins líkleg," segir í hagspá Landsbankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka