Viðskiptahallinn helmingi minni en í fyrra

Viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 28 milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins, eða 9% af vergri landsframleiðslu. Á sama tíma í fyrra nam viðskiptahallinn 57,3 milljörðum króna eða eða 22% af landsframleiðslu og 30% á lokafjórðungi síðasta árs. Halli var á öllum liðum viðskiptajafnaðar, vöru, þjónustu, þáttatekna og rekstrarframlaga.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var halli á vöruskiptum var 8,1 milljarður króna samanborið við 31,9 milljarða á sama tíma í fyrra. Minni viðskiptahalli fyrsta ársfjórðungs skýrist að hluta til af sérstökum liðum, svo sem sölu flugvéla og hagnaðar af fjárfestingu erlendis.

Batinn á þáttatekjum er rakinn til hlutdeildar Íslendinga í hagnaði erlendra fyrirtækja, en hann er færður til tekna og endurfjárfestur á sama tíma í fyrir¬tækjunum. Lítilsháttar aukning varð á gjaldahlið þáttateknanna, sem á sama hátt skýrist af endurfjárfestum hagnaði erlendra aðila á Íslandi. Hins vegar var nýfjárfesting erlendra aðila á Íslandi lítil á ársfjórðungnum.

Hreint fjárútstreymi nam 88,3 milljarðar á ársfjórðungnum. Bein fjárfesting innlendra aðila erlendis og kaup þeirra á erlendum skuldabréfum jukust töluvert frá síðasta ársfjórðungi 2006. Á hinn bóginn dróst bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi saman og sama máli gegndi um fjárfestingu þeirra í íslenskum markaðsskuldabréfum.

Hrein staða við útlönd var neikvæð um 1283 milljarða í lok fyrsta ársfjórðungs en hafði batnað um 114 milljarða á ársfjórðungnum. Segir Seðlabankinn, að batinn stafi einkum af styrkingu gengis krónunnar um 7,8%. Erlendar eignir námu 4787 milljörðum í lok ársfjórðungsins en skuldir 6069 milljörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK