Selur allan hlut sinn í Icelandair fyrir 4,9 milljarða

Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is
Finnur Ingólfsson hefur selt hlut sinn í Icelandair Group og hættir í stjórn félagsins en hann hefur verið stjórnarformaður félagsins undanfarin misseri. Ekki er enn vitað hver tekur við af Finni sem stjórnarformaður en búist er við að boðaður verði hluthafafundur innan nokkurra vikna.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins átti Finnur sjálfur 7,9% hlut í Icelandair í gegnum Langflug ehf. Í gegnum skiptasamning við Langflug fékk FS7, eignarhaldsfélag í eigu Finns, þessi bréf í Icelandair gegn bréfum í Langflugi. Auk þeirra keypti FS7 hluti nokkurra annarra hluthafa í Icelandair, þeirra á meðal AB 57 ehf. og Grindvíkings ehf. og eftir það var nam hlutafjáreign FS7 í Icelandair 15,5% af heildarhlutafé Icelandair.

Hagstætt verð fyrir hlutinn

Hvað kaupendur varðar þá munar mest um Fjárfestingarfélagið Mátt ehf. sem keypti 11,11% í Icelandair af FS7. Meðal stjórnarmanna í Mætti eru Einar Sveinsson og Gunnlaugur M. Sigmundsson sem jafnframt eru báðir í stjórn Icelandair.

Afgangurinn af bréfum FS7 mun svo hafa verið seldur til félaga í eigu Steinunnar Jónsdóttur og Finns Stefánssonar.

Segist Finnur hafa fengið mjög hagstætt verð fyrir hlutinn og ákveðið að selja og snúa sér að öðrum verkefnum. Meðalgengi viðskiptanna var 31,5 og samkvæmt því nema viðskiptin 4,9 milljörðum króna.

Segist Finnur í samtali við Morgunblaðið vera að skoða nokkur áhugaverð fjárfestingartækifæri, en ekki sé tímabært að greina nánar frá þeim.

Gott tækifæri

Eins og áður segir eignaðist Fjárfestingarfélagið Máttur 11,11% í Icelandair og nemur heildarhlutafjáreign Máttar því 23,11%. Hlutur Langflugs hefur hins vegar minnkað úr 32% í 23,77% í kjölfarið á áðurnefndri sölu bréfa til FS7.

Einar Sveinsson segir í samtali við Morgunblaðið að þungamiðjan í hluthafahópi Icelandair hafi með kaupunum færst til. Mætti ehf. hafi þarna boðist gott tækifæri til að auka hlut sinn í félaginu og gripið það. Aðstandendur Máttar treysti sér til að leiða félagið til frekari vaxtar í framtíðinni, enda sé Icelandair traust félag og góð fjárfesting.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK