Ráðherrar gagnrýna vaxtahækkun

Ráðherrabekkurinn á Alþingi.
Ráðherrabekkurinn á Alþingi. mbl.is/Sverrir

Gagnrýni kom fram af hálfu ráðherra á Seðlabankann á Alþingi í dag fyrir hækkun stýrivaxta, sem bankinn boðaði í gær. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að hækkunin hefði komið á óvært og væri ekki heppileg fyrir það sem framundan væri, sérstaklega kjarasamninga. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði að Seðlabankinn virtist í rökstuðningi fyrir hækkuninni aðallega horfa í baksýnisspegilinn.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, tók málið upp í byrjun þingfundar og sagði, að Seðlabankinn vildi með vaxtahækkuninni senda afar skýr skilaboð um strangt aðhald í peningamálum og botnstígi nú bremsurnar en ríkisstjórnin stæði á bensíngjöfinni.

Geir H. Haarde sagði, að hækkunin hefði komið flestum að óvörum en Seðlabaninn tæki sjálfstæðar ákvarðanir og lyti ekki boðvaldi, hvorki Alþingis né ríkisstjórnar.

Geir sagðist þó ekki telja þessa ákvörðun heppilega og hún gæti m.a. gert samningsaðilum kjarasamninga erfiðara fyrir að ná skynsamlegri niðurstöðu.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði að það væri ekki rétt hjá Seðlabankanum, sem komið hefði fram í greinargerð fyrir vaxtahækkuninni, að framkvæmdir hér séu að aukast þvert ofan í væntingar. Aukningin væri af tvennskonar toga: Annars vegar vegna vegna samgöngumála og hins vegar vegna samdráttar í þorskafla. Samgönguáætlun hefði legið fyrir sl. vetur og aðgerðir vegna aflasamdráttar frá því í vor.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði, að vaxtahækkunin væri alvarleg tíðindi fyrir þá sem þurfa að taka lán á þeim háu vöxtum sem nú eru í boði í bankakerfinu. Sagði Ingibjörg Sólrún, að það hefði vakið athygli hennar að rökstuðningur bankans hefði aðallega verið þess eðlis að horft væri í baksýnisspegilinn og vísað til þenslu sem hefði átt sér stað í kerfinu fyrir löngu síðan. Ekki hefði hins vegar verið mikil tilvísun í framtíðina.

„Hvað er það við sjóndeildarhring sem rökstyður það að fara í þessa vaxtahækkun?" sagði Ingibjörg Sólrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK