Tap 365 var 2283 milljónir á síðasta ári

Ari Edwald, forstjóri 365 hf.
Ari Edwald, forstjóri 365 hf. mbl.is/Sverrir

Tap 365 nam 2.283 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 6.943 milljónir króna í tap árið 2006. Í tilkynningu kemur fram að í tapinu er tekið tillit til þeirrar starfsemi sem hefur verið lögð niður en eignarhlutur í Wyndeham var færður niður að fullu að fjárhæð 2.095 milljónir króna.

Í tilkynningu segir að hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) ársins 2007 nam 1162 m.kr. en á árinu 2006 var EBITDA tap 12 m.kr. ef söluhagnaður dreifikerfis upp á 1563 m.kr. er undanskilinn.

Eigið fé minnkar um 1.592 milljónir

Tekjur á árinu 2007 námu 12.381 m.kr. og jukust um 11,6% á milli ára.  Eigið fé var 4.545 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 31%. Eigið fé var í árslok 2006 6.137 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið var 32,7%. Eigið fé 365 hefur því dregist saman um 1.592 milljónir króna á árinu 2007. Veltufjárhlutfallið var 0,87 en var í lok árs 2006 0,62. Félagið seldi eignarhlut sinn í Hands Holding á tímabilinu að upphæð 1.620 m.kr. og andvirði þess var notað til að greiða niður lán. Handbært fé í lok árs nam 190 m.kr. og lækkaði um 756 m.kr. frá ársbyrjun.


Stjórnendur 365 áætla að tekjur ársins 2008 verði á bilinu 13,5 til 14 milljarðar og EBITDA verði 1.300 til 1.400 m.kr.


Tap 365 á fjórða ársfjórðungi nam 2.243 milljónum króna og er það svipuð afkoma og á fjórða ársfjórðungi 2006 er tap félagsins nam 2.246 m.kr. eftir skatta. Bókfærður var 33 m.kr. söluhagnaður vegna sölu á hljóðverum félagsins. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 404 m.kr. en var um 25 m.kr. af reglulegum rekstri á fjórða ársfjórðungi 2006.


Hlutafé aukið um 1,5 milljarð að söluvirði

Ari Edwald, forstjóri 365 segir í tilkynningu til Kauphallar OMX: „Rekstrarárangur á árinu 2007 sýnir að félagið er í sókn bæði er varðar tekjuvöxt og afkomu grunneininga sem staðfestir viðsnúning á rekstri félagsins frá fyrra ári.  Rekstur fjölmiðlahlutans gekk vel á árinu og skilaði 900 m.kr. í EBITDA sem er einn besti árangur sem náðst hefur í þessari starfsemi á Íslandi.  Sala og dreifing í afþreyingahluta rekstursins gekk vel á árinu en hinsvegar var framleiðsluhlutinn ekki að standa undir væntingum. 

Í heild er rekstur félagsins þó mjög nærri þeim áætlunum sem kynntar hafa verið.  Við viljum gæta varfærni við mat á eignarhlutum félagsins og með því að færa niður eignahlut í Wyndeham Press Group að fullu hefur óvissu verið eytt og gegnsæi félagsins aukið.  Á árinu voru stigin mikilvæg skref í að styrkja fjárhagsstöðu félagsins með sölu á eignum og niðurgreiðslu skulda. 

Veltufjárhlutfall félagsins er í árslok 0,87 og eiginfjárhlutfall 31%.  Stefnt er að því að auka fjárhagslegan styrk félagsins ennfrekar á næstunni með aukningu á hlutafé að söluverði um 1.500 m.kr. en með þeirri ráðstöfun er verið að laga efnahag félagsins að núverandi starfsemi og búa í haginn fyrir áframhaldandi uppbyggingu.“

Afkomutilkynning 365 og ársreikningur




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK