Exista vill yfirtaka Skipti

Skipti.
Skipti.

Stjórn Exista ákvað á fundi sínum í morgun að leggja fram
valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Skipta, móðurfélag Símans. Tilboð Exista hljóðar upp á 6,64 krónur á hlut sem er sama verð og í nýafstöðnu hlutafjárútboði Skipta. Greitt verður með nýjum hlutum í Exista sem verða verðlagðir í samræmi við lokagengi á OMX í gær sem var 10,1 króna á hlut.

Fyrirhugað er að tilboðið standi í átta vikur. Verði gengið að tilboðinu mun Exista leggja til við stjórn Skipta að óskað verði eftir afskráningu félagsins eins fljótt og auðið er.

Stefnt að skráningu á ný síðar

Í tilkynningu til kauphallar OMX er kemur fram að ástæða tilboðs Exista er sú að félagið telur ekki vera grundvöll fyrir eðlilega verðmyndun með hlutabréf Skipta á markaði í ljósi niðurstöðu nýafstaðins hlutafjárútboðs og þeirra óvenjulega erfiðu markaðsaðstæðna sem nú ríkja.

Vegna samþjappaðs eignarhalds og markaðsaðstæðna eru verulegar líkur á því að félagið og hluthafar þess muni ekki njóta þeirra kosta sem fylgja skráningu í kauphöll. Stefnt er að því að kanna skráningu félagsins á ný þegar aukið jafnvægi verður komið á fjármálamörkuðum.
 
„Það er mat Exista að tilboðsverðið, 6,64 krónur á hlut, endurspegli á
sanngjarnan hátt núverandi raunvirði Skipta í samanburði við önnur
fjarskiptafyrirtæki á markaði og nýlegar yfirtökur á sambærilegum fyrirtækjum. 

Exista og dótturfélög þess eiga þegar 43,68% hlutafjár í Skiptum og gerir
Exista tilboð í alla útistandandi hluti félagsins. Verði tilboðið samþykkt mun stjórn Exista nýta heimild í samþykktum félagsins til útgáfu allt að 2.846.026.330 nýrra hluta í Exista. Hlutafé Exista mun því að hámarki aukast úr 11.361.092.458 hlutum í allt að 14.207.118.788 hluti og
eigið fé félagsins mun aukast um allt að 28,7 milljarða króna," samkvæmt tilkynningu.

Tilboðið er háð skilyrði um samþykki samkeppnisyfirvalda að því marki sem það kann að vera áskilið lögum samkvæmt.

Skipti voru skráð í Kauphöll OMX á Íslandi í dag í kjölfar hlutafjárútboðs.
Útboðið og skráning félagsins á hlutabréfamarkað var í samræmi við ákvæði kaupsamnings sem upphaflega var gerður við sölu ríkisins á 98,8% hlut í Landssíma Íslands hf. árið 2005.

Í útboðinu, sem stóð frá 10. til 13. mars 2008, var almenningi og öðrum fjárfestum boðið að kaupa 30% hlutafjár félagsins. Einungis seldust um 7,5% hlutafjár í félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK