Stjórnendur stærstu fyrirtækja svartsýnni en áður

Í könnun sem gerð var í febrúar og mars sl. kom fram, að stjórnendur 400 stærstu fyrirtækja landsins eru töluvert svartsýnni um núverandi aðstæður í efnahagslífinu en í síðustu könnun sem gerð var í desember.

Fram kemur í Hagvísum Seðlabankans, að tæpur helmingur fyrirtækja taldi aðstæður vera slæmar nú samanborið við tæplega fimmtung þá. Hins vegar eru horfur framundan betri en áður að mati forsvarsmanna fyrirtækja. Rúmur fjórðungur fyrirtækja taldi að aðstæður yrðu betri eftir sex mánuði samanborið við 16% í síðustu könnun.

Í hagvísum kemur fram, að vísbendingar um eftirspurn það sem af er árinu bendi til áframhaldandi vaxtar, en þó hægari en á fjórðungnum á undan. Vöxtur greiðslukortaveltu einstaklinga innanlands nam 7% fyrstu tvo mánuði ársins en var 11½% á síðasta fjórðungi í fyrra.

Seðlabankinn segir, að hægari vöxtur kortaveltu skýrist að mestu leyti af samdrætti í debetkortaveltu (-1%) en einnig hægði á vexti kreditkortaveltu, sem þó var tæpum 14% meiri fyrstu tvo mánuði ársins en á sama tíma í fyrra. Ársvöxtur dagvöruveltu var hins vegar heldur meiri fyrstu tvo mánuði ársins en á síðasta fjórðungi ársins 2007, eða rúmlega 14% að raunvirði. Nýskráningum bifreiða fjölgaði um 17% í febrúar eftir metaukningu í janúar (60%).

Sementssala án stóriðju hefur aukist um 11% það sem af er fjórðungnum miðað við sama tíma í fyrra en jókst um fimmtung á fjórðungnum á undan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK