Hlutabréf VW lækkuðu um 37%

Volkswagen-merki
Volkswagen-merki Reuters

Gengi hlutabréfa þýska bílaframleiðandans Volkswagen lækkuðu um 37% í morgun eftir að bílaframleiðandinn Porsche boðaði að hann áformaði að selja hluta af sínum bréfum til að koma stöðugleika á verðið. Bréf VW hækkuðu í gær um 81,7% vegna frétta af því að Porsche stefndi að því að eignast meirihluta í félaginu.

Varð VW um tíma í gær verðmætasta hlutafélag heims, metið á 296 milljarða evra, og fór upp fyrir ExxonMobil.

Sveiflurnar á gengi bréfa VW má rekja til þess að vogunarsjóðir höfðu ákveðið að veðja á að bréf félagsins myndu lækka líkt og annarra bílaframleiðenda og því skortselt bréfin. Eftir að Porsche lýsti því yfir á mánudag að félagið réði yfir 74% af hlutabréf VW og ætlaði að eignast stærri hlut upphófst mikið kapphlaup vogunarsjóðanna um að kaupa bréf aftur og leiddi til þess að gengi bréfanna hækkaði upp úr öllu valdi. Er talið að vogunarsjóðir hafi tapað allt að 30 milljörðum evra, jafnvirði 4600 milljörðum króna, á ævintýrinu.

„Þetta er án efa mesta tap á hlutabréfum eins fyrirtækis í sögu vogunarsjóða," sagði  Laurie Pinto, verðbréfamiðlari hjá North Square Capital, við fréttavef breska blaðsins Daily Telegraph. 

Talsmaður eins vogunarsjóðs sagði, að það hefðu komið nokkrir svartir dagar að undanförnu en gærdagurinn væri sá svartasti.    

Þýska Dax hlutabréfavísitalan hækkaði um rúm 11% í gær, aðallega vegna hækkunar hlutabréfa VW, en lækkaði um 7,5% við upphaf viðskipta í morgun. Vísitalan jafnaði sig hins vegar fljótt en var nú á níunda tímanum 2,4% lægri en í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK