McDonald's hagnast í kreppunni

Söluaukning hjá McDonald's í kreppunni.
Söluaukning hjá McDonald's í kreppunni. Reuters

Neytendur um allan heim sem halda fast utan um pyngjuna í núverandi efnahagsárferði keyptu mun meira af hamborgurum og kjúklingi hjá McDonald's í október heldur en á sama tíma í fyrra.

Höfuðstöðvar McDonald's tilkynntu í dag um að sala á heimsvísu hefði aukist um 8,2 prósent í október á sömu stöðum milli ára og fór salan fram úr væntingum. Fyrirtækið hafði áður áætlað að salan myndi aukast um 7,1 prósent, sem er svipaður vöxtur og var hjá fyrirtækinu á öðrum ársfjórðungi.

Ljós í myrkrinu
Sölutölur McDonald's eru ljós í myrkrinu í augnablikinu þegar flestar veitingakeðjur hafa tilkynnt um versnandi afkomu. Mikils kvíða hefur gætt hjá neytendum sem óttast um langvinna kreppu. Því hefur neysla minnkað og tekjur veitingahúsa dregist saman. En neytendur virðast í staðinn snúa sér að skyndibita eins og McDonald's.

Í Bandaríkjunum einum og sér jókst salan um 5,3 prósent hjá fyrirtækinu en nýir vöruflokkar á matseðli, eins og suðrænn kjúklingaborgari og aukin eftirspurn eftir morgunmat, hefur átt stóran þátt í söluaukningunni. Klinktilboð og önnur söluvæn tilboð fyrirtækisins virðast einnig hafa lagst vel í neytendur.   

„Góðar sölutölur í október sýna að við erum að standast þær kröfur sem fólk gerir til McDonalds, að það sé úrval, fjölbreytni og úrvalsfæða á góðu verði,“ segir Jim Skinner, framkvæmdastjóri hjá McDonald's í tilkynningu.  

Söluaukning á sömu McDonald's stöðum milli ára í Evrópu var 9,8 prósent og 11,5 prósent í Asíu, Austurlöndum nær og Afríku. Eftirspurnin var sérstaklega mikil í Ástralíu, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Sölutölur sem mæla samanburð sömu staða milli ára eru sterk vísbending um frammistöðu veitingahúsa því þær eru mælikvarði á vöxt hjá eldri stöðum, fremur en stöðum sem hafa nýlega opnað.

Steven Kron, hjá greiningardeild Goldman Sachs, sagði í bréfi til fjárfesta að skriðþungi í viðskiptum hjá fyrirtækinu væri að yfirstíga allar sveiflur í styrkleika dollarsins.

Hlutabréf í McDonald's hækkuðu um þrjú prósent í kjölfar frétta af söluaukningunni, í 57,16 dollara á hlut.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK